139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:37]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra Jón Bjarnason er samkvæmur sjálfum sér í málinu. Það hefur trúlega ekki alltaf verið auðvelt að standa í hans sporum eða sitja í hans sæti í Stjórnarráðinu á ríkisstjórnarfundum þar sem þessi mál hefur borið á góma. Hæstv. ráðherra á heiður skilinn fyrir það að hafa staðið með sannfæringu sinni í málinu því það hefur ekki verið til vinsælda fallið við ráðherraborðið í Stjórnarráðinu, eins og ég sagði áðan.

Það undrar mig að svo margir hv. þingmenn Vinstri grænna virðast hafa snúið við stefnu sinni í málinu og ætla núna að styðja það að færa valdheimildir frá Alþingi Íslendinga til framkvæmdarvaldsins, þvert á það sem þessi flokkur talaði fyrir á árunum 1999 til ársins 2009 þegar hann settist í ríkisstjórn.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki sammála mér í því að hér sé augljóslega verið að færa völd frá Alþingi Íslendinga til hæstv. forsætisráðherra. Ég hef reynt að fá hæstv. forsætisráðherra hingað upp til að draga þau orð sín til baka sem hún viðhafði í kvöldfréttum sjónvarpsins og sagði það rangt sem ég hafði haldið fram að verið væri að veikja valdheimildir Alþingis með frumvarpinu. Ég held að það blasi við öllum öðrum en hæstv. forsætisráðherra. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann sé sammála mér um að verið sé að veikja Alþingi hvað varðar skipan Stjórnarráðsins með frumvarpinu og ég spyr líka hæstv. ráðherra hvort hann telji að fleiri innan þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs ætli í rauninni að fylgja sannfæringu sinni í málinu.