139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:40]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Við hæstv. ráðherra erum alveg sammála um þetta. En mig langar aðeins að bæta við þetta. Hv. þingmenn hafa rætt um ný vinnubrögð og m.a. var það rætt undir liðnum um fundarstjórn forseta í morgun að menn ættu að gera svo vel og taka sig út af mælendaskrá og láta þetta mál ganga til atkvæðagreiðslu í þinginu. Eru það nútímaleg vinnubrögð að við klárum umræðu í þinginu án þess að geta kastað fram spurningum og fengið svör? Eins og ég sagði áðan, frú forseti, þá er okkur neitað um svör í umræðunni. Ef það er þessi nýja frjálslynda pólitík sem á að taka við öllu hér þá er ég ekki viss um að störfin á Alþingi Íslendinga á komandi árum verði eins vönduð og ella væri, með ítarlegri umræðu þar sem menn varpa fram gagnrýnum spurningum og fá svör við þeim og þegar þau svör hafa komið fram er hægt að ganga til afgreiðslu um viðkomandi mál. En eins og ég hef sagt áður um aðdraganda þessa máls þá hefur (Forseti hringir.) samráðið við stjórnarliðið ekki verið neitt og það er alveg ótrúlegt að þurfa að ræða þetta mál (Forseti hringir.) fram á nætur, spyrja spurninga og fá engin svör.