139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:48]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að mikilvægt er að ráðamenn þjóðarinnar segi satt og rétt frá hlutunum og það er hárrétt sem hv. þingmaður bendir á varðandi Líbíu. Þar er vægast sagt um mjög misvísandi ummæli að ræða frá hæstv. ríkisstjórn.

Ég vil líka taka undir með hv. þingmanni um fjórða valdið í samfélaginu, fjölmiðlana. Ég auglýsi eftir því. Hvar er aðhald fjölmiðlanna gagnvart ríkisstjórninni? Einhvern tíma hefði ég séð einhvern fjölmiðil sauma að forustumanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um hvað valdi því að flokkur hans sé gersamlega búinn að snúa stefnu sinni á hvolf í þessu máli sem við ræðum núna og að hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar Vinstri grænna þyrftu að gera alþjóð grein fyrir því hvers vegna stefna þeirra er allt önnur í dag en hún var fyrir kosningarnar 2009. Hvar er fjórða valdið? Þeirra ábyrgð er líka mikil. Okkar ábyrgð er líka mikil (Forseti hringir.) og við spyrjum spurninga og við viljum fá svör og ég vil ekki klára þessa umræðu fyrr en við fáum svör við þeim spurningum (Forseti hringir.) sem við höfum sett fram.