139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:12]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Skemmst er frá því að segja að maður getur lesið margar skýrslur frá Ríkisendurskoðun, mörg ár aftur í tímann. Mér er minnisstætt eitt dæmi í framkvæmd fjárlaga á árinu 2010. Þá var tekin ákvörðun um að fara í ákveðnar framkvæmdir sem forsætisráðuneytið heimilaði, sem gekk gegn fjárreiðulögum ríkisins. Ábending kom um það í skýrslu frá Ríkisendurskoðun.

Það er enginn agi í fjármálum og fjármálin hjá hinu opinbera eru hreint með ólíkindum. Það verður að taka þau til gagngerðrar endurskoðunar og koma skikki á þar. Ef ég veit rétt þá hefur hv. fjárlaganefnd í fyrsta sinn sett á netið álit um skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings 2009. Þetta eru þau vinnubrögð sem við hv. þingmenn sem sitjum í fjárlaganefnd erum sammála um að reyna að breyta til að fá betri stjórn á hlutina. Það er mjög mikilvægt að sú vinna haldi áfram og markmiðin sem koma fram í þeirri skýrslu nái fram að ganga.

Hv. þingmaður nefnir áhyggjur af löggæslu og það er auðvitað hárrétt. Hægt er að nefna fullt af dæmum um það og hv. þingmanni ætti að vera vel kunnugt um að í hans heimabyggð í Dölunum, þar sem hv. þingmaður býr, er einmitt búið að leggja niður stöðu eina lögreglumannsins sem var þar starfandi. Nú þarf lögreglan að koma alla leið úr Borgarnesi. Er búið að leiðrétta stöðuna gagnvart lögreglunni í Borgarnesi? Nú höfum við séð skýrslur og nýlegar úttektir um hvað öll þessi umferð fólks sem á sumarbústaði á þessu svæði þýðir fyrir heilbrigðisþjónustuna og löggæsluna í Borgarnesi, þetta á eftir að leiðrétta gagnvart þessum svæðum. Hér er ekki fjallað um það heldur er verið að færa kannski einhverja tugi milljóna eða hundruð milljóna til framkvæmdarvaldsins. Þetta þurfum við að skoða miklu betur og fara yfir, þannig að allir sitji við sama borð.