139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:14]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er hárrétt og ég fagna því að fjárlaganefnd sé í auknum mæli að skoða hvernig hægt sé að haga málum þannig að svona lagað sé ekki alltaf að gerast, maður er kannski orðinn svolítið langeygur eftir því, því einmitt sú ríkisstjórn sem núna situr talaði um að reyna að koma skikki á þessi mál.

Hv. þingmaður kom inn á löggæslumálin í heimabyggð minni og ég veit hvernig þau mál standa og það hefur tekið gríðarlega orku frá fólki þar að þurfa að berjast fyrir þessu eina löggæsluembætti og ekki er alveg útséð með það enn. Svona er þetta alls staðar. Það þarf að berjast fyrir því að draga út smáfjárhæðir, litlar fjárhæðir, í það sem nánast ekkert er. Á meðan kemur ríkisstjórnin með hvert frumvarpið á fætur öðru þar sem hundruðum milljóna er dælt út. Menn hafa varla hugmynd um um hvaða upphæðir er að ræða og setja fjármuni í ýmis gæluverkefni hingað og þangað. Það virðist vera alger óstjórn á þessum málum.

Ég vona svo sannarlega að þarna verði breyting á og vil þakka hv. þingmanni sérstaklega fyrir það hvernig hann hefur, í þessu máli sem og öðrum, vakið athygli á þessum þætti og tekið hann upp í umræðunni. Það er sama hvort það hefur verið í þessu máli eða öðrum, hv. þingmaður bendir ávallt á þetta. Það er raunar mjög sorglegt og alvarlegt hversu oft hv. þingmaður þarf að benda á þetta og aðrir hv. þingmenn vegna þess að kostnaðarútreikningar í frumvörpum frá ríkisstjórninni eru oft ekki upp á marga fiska. Þannig er það bara. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að hafa bent á þetta.