139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:16]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir orð hans í minn garð. Þetta er í mínum huga ekkert mjög flókið. Það er sama hvort verið er að reka sveitarfélag, fyrirtæki eða nánast bara heimili, menn verða í fyrsta lagi að hafa yfirsýn yfir í hvað þeir eru að setja fjármunina og í öðru lagi að forgangsraða. Menn hafa ekki nægilega yfirsýn yfir það sem er verið að gera. Í fyrsta lagi þarf að breyta öllu fjárlagaferlinu, þ.e. að menn hafi afmarkaða útgjaldaramma.

Og af því að maður er farinn að ræða kannski það sem maður hefur mestan áhuga á, þá er það þannig að einstakar stofnanir eru með markaðar tekjur eða sértekjur. Við samþykkjum t.d. fjárlög um einhverja eina stofnun sem á að hafa einn milljarð til ráðstöfunar. Síðan hefur sú stofnun markaðar tekjur og þá er niðurstaðan kannski sú að útgjöld þeirrar stofnunar eru um 1.200 millj. kr. eða 1.300 millj. kr., kannski 20–30% umfram það sem gert er ráð fyrir í fjárlögum sem samþykkt eru á Alþingi. En það kemur ekki í ljós fyrr en tveimur árum seinna þegar menn samþykkja ríkisreikning. Þá er fyrir löngu búið að eyða þessum peningum.

Þessu verður auðvitað að breyta í þá veru að allar stofnanir verða að vera á fjárlögum og allar tekjur verða að fara í ríkissjóð. Það er mjög mikilvægt að þessum hlutum verði breytt því þetta gengur ekki. Við sjáum það, og ég hef nefnt það áður í ræðum, ef við tökum bara árið 2008 og yfir á árið 2009. Við vitum öll hvernig fjárlagagerðin var fyrir árið 2009. Niðurskurður í heilbrigðisþjónustunni, alls staðar niðurskurður, niðurskurður. Ein stofnun, Hafrannsóknastofnun, jók hins vegar útgjöldin á milli áranna 2008 og 2009 um 15,4%. Það var ekki samkvæmt áætlun fjárlaga sem samþykkt voru á Alþingi, nei. Þetta var vegna þess að sú stofnun hafði sértekjur. Hvaðan komu þær sértekjur? Þær komu frá einu ráðuneyti sem er í stjórnkerfi okkar. Þetta gengur ekki (Forseti hringir.) svona og þessu verður öllu að breyta til að ná skikki á fjármál ríkisins.