139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:21]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég kom upp áðan undir liðnum um fundarstjórn forseta og spurðist fyrir um hæstv. ráðherra úr ríkisstjórninni. Ég tek fram og þakka sérstaklega fyrir að hæstv. innanríkisráðherra er sestur í salinn og ég þakka þá viðleitni hans að koma hingað og hlýða á þá gagnrýni sem margir stjórnarandstæðingar hafa sett fram í dag og ekki að ástæðulausu.

Í dag hafa komið fram ákveðin sjónarmið hjá þeim ráðherrum sem hafa tjáð sig. Reyndar talaði hvorugur undir þessum dagskrárlið heldur undir dagskrárliðnum óundirbúnar fyrirspurnir. Þar kom skýrt fram hjá hæstv. fjármálaráðherra að hann teldi að það frumvarp sem við ræðum hér, um Stjórnarráð Íslands, fæli í sér mikla hagræðingu. Það er ekki hægt að greina það á umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins og ég skil ekki hvernig hægt er að segja að það sé hagræðing í frumvarpi sem felur í sér verulegan kostnaðarauka upp á hátt á annað hundrað milljarða með því að fjölga starfsmönnum ríkisins. Ég fæ væntanlega ekki svör við þessu en bind þó vonir við það að síðar í kvöld verði hæstv. fjármálaráðherra hér til svara.

Um leið og ég ítreka þakkir mínar fyrir að hæstv. innanríkisráðherra er í salnum vil ég nýta tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra um það sem kom fram strax eftir að málið var afgreitt úr ríkisstjórninni. Þá sagði í Morgunblaðinu í apríl sl., með leyfi forseta:

„Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, bókaði andstöðu sína við frumvarpið á fundi ríkisstjórnarinnar og áskildi sér rétt til að tala gegn því í þingflokki og á þinginu sjálfu. Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, samþykkti frumvarpið með fyrirvörum.“

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra er hér staddur og nú vil ég gjarnan fá að vita hverjir þessir fyrirvarar nákvæmlega eru og hvort þeir fela í sér svipaða afstöðu og kom fram í máli hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra áðan sem kom upp í andsvar við að mig minnir hv. þm. Ásbjörn Óttarsson. Ég ítreka að andstaða mín gegn þessu frumvarp felur ekki í sér sjálfkrafa stuðning við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason en menn mega eiga það sem þeir eiga og það átti við um hæstv. ráðherra Jón Bjarnason áðan. Hann kom mjög heiðarlega fram og sagði að hann hefði hafið sinn þingmannsferil árið 1999 og verið í stjórnarandstöðu til ársins 2009. Hann vildi sérstaklega mótmæla því að hann hefði verið í nokkru málþófi. Hann barðist hins vegar einarðlega gegn ákveðnum þáttum og málum frá ríkisstjórninni sem honum fannst fyrr á dögum oft vera með valdbeitingu. Það kann vel að vera. Ég ætla ekki að tjá mig um það en það getur vel verið algjörlega rétt eins og manni finnst stundum. Ég fæ á tilfinninguna að við upplifum það í dag.

Ég styð það sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagði og fagna því sérstaklega. Ég upplifði ávallt að sá ráðherra ræddi á öllum sínum ferli sem þingmaður í stjórnarandstöðu um þingið á þann veg að það þyrfti að efla það og styrkja. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ekki breytt um þá afstöðu eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur gert því að þegar við ræddum í þinginu sameiningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytanna árið 2007 sagði einmitt hæstv. fjármálaráðherra, þá stjórnarandstöðuþingmaður, að það þyrfti að ná víðtækri sátt, vanda til verka o.s.frv. Við þekkjum þessa rullu öllsömul og getum í rauninni öll tekið undir hana.

Hins vegar hefur hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verið sjálfum sér samkvæmur. Það þarf ákveðið hugrekki til þess sem ráðherra í ríkisstjórn, og hæstv. innanríkisráðherra þekkir að það þarf að kyngja vel og draga andann djúpt þegar menn ætla að fara gegn samþykkt ríkisstjórnar. Það má deila um hvort menn eigi þá í kjölfarið að segja af sér eins og hæstv. ráðherra gerði á sínum tíma í tengslum við Icesave-málið. Ég held að það hafi verið algjörlega rétt. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kemur hingað í þingið, þótt það sé ekki nema í tveggja mínútna andsvari, og segir skoðun sína og afstöðu. Það er vel. Það er alveg hægt að lesa á milli línanna í því sem hann sagði áðan og ég nóteraði hjá mér að hann vill styrkja löggjafarþingið, hann vill styrkja stöðu þingsins eins og hann orðaði það og sagði að ekkert hefði breyst. Fyrir þetta málefnalega innlegg ráðherra er ég þakklát en ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann sé sammála hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að við eigum að gera allt til að styrkja þingið. Hvernig má þá vera að það sé hægt að segja að þetta frumvarp sé í samræmi við annars vegar rannsóknarnefnd Alþingis og hins vegar það sem svonefnd þingmannanefnd lét frá sér.

Vel að merkja, hv. þm. Atli Gíslason flutti ræðu eftir miðnætti þar sem hann fór mjög gaumgæfilega yfir það að þetta frumvarp væri ekki í samræmi við anda, hugsun og markmið þingmannanefndarinnar svokölluðu. Mér þætti vænt um að fá viðhorf hæstv. ráðherra til þessa viðhorfs hv. þm. Atla Gíslasonar og ég ítreka spurningu mína um það hvort ráðherrann telji þetta frumvarp stríða gegn því sem við erum að reyna að berjast fyrir, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, og það er að efla þingið. Okkur verður að auðnast það á næstu missirum.

Hvernig má það vera að það þurfi þessa lagabreytingu ef menn vilja hrókera í ráðuneytum? Þá er ég ekki að tala um mannaforræði heldur einfaldlega ráðuneytin sem slík. Ég hef á tilfinningunni eftir að hafa hlustað á þær ræður sem hafa verið fluttar undanfarið en líka framsöguræðuna og ræðuna frá formanni allsherjarnefndar að þetta vald þurfi að færast yfir til forsætisráðherra. Af hverju þarf það? Af hverju er vont að þingið komi að málum og ræði þau? Það var ekkert málþóf hjá stjórnarandstöðunni á sínum tíma þegar við ræddum sameiningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis. Þá komu fram skýrar skoðanir frá stjórnarandstöðunni og það var talað um hina víðtæku sátt en menn fóru ekki í neinar málþófsæfingar eða voru að þvælast fyrir heldur ræddu þessi sjónarmið og þau voru reifuð á þingi. Það var ekkert óheilbrigt við það. Það sama var þegar við færðum málefni á milli ráðuneyta. Þá lýsti til að mynda hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, þá sem þingmaður, einarðlega andstöðu sinni við það að landbúnaðarskólarnir tveir færu undir menntamálaráðuneytið. Það var mikilvægt að fá þau viðhorf fram (Sjútvrh.: Ég var nú reyndar ekki sammála.) þó að við værum ósammála um það atriði. Engu að síður gafst þáverandi þingmanni, núverandi ráðherra, tækifæri til að lýsa sjónarmiði sínu og ég held að það sé mikilvægt að þingmenn fái þetta tækifæri til að lýsa skoðun sinni og taka afstöðu til þess hvert Stjórnarráð Íslands stefnir.

Hvað var hættulegt við það að þingið fengi að segja skoðun sína á því að tryggingamálin færðust úr heilbrigðisráðuneytinu yfir í félagsmálaráðuneytið? Ekki neitt. Það var ekkert hættulegt við það. Umræðan kann að hafa verið eitthvað óþægileg um tíma fyrir einhverja ráðherra. Þá var reyndar núverandi hæstv. forsætisráðherra félagsmálaráðherra. Það er bara heilbrigt að þingið fái að tjá sig og það er það sem við erum að reyna að draga fram þegar við segjum að við þurfum að efla stöðu þingsins. Þá erum við líka að segja að við eigum að auka aðkomu þingsins að ákveðnum málum. Við eigum ekki að draga úr henni. Mitt mat er að með þessu ferli séum við að draga úr því að þingið fái tækifæri til að koma að því að móta það hvernig framkvæmdarvaldið er uppbyggt. Þá erum við ekki að segja að þingið hafi puttana í öllu. Það hefur heldur ekki verið þannig. Það hefur verið hægt að hreyfa á milli, færa málaflokka eins og ég gat um, sameina ráðuneyti og jafnvel skipta þeim upp þannig að það þarf ekki allan þennan lagabálk til að það sé ákveðin skilvirkni í kerfinu öllu. Mér þætti fróðlegt að fá fram viðhorf hæstv. ráðherra til þess hvort þetta stríði gegn því markmiði þingsins að efla löggjafarvaldið og ég spyr hæstv. ráðherra líka um dagsetningu. Hún kemur hvergi fram, ég hef leitað en það kemur hvergi neitt fram sem segir okkur að við verðum að klára þetta mál fyrir ákveðna dagsetningu.

Á dagskrá þingsins í dag er mál sem tengist gjaldeyrishöftunum og það er dagsetningarmál. Hvað er það sem liggur á í málinu sem við erum að ræða? Það væri fróðlegt að fá viðhorf hæstv. innanríkisráðherra til þess. Ég kem ekki auga á það af hverju við getum ekki einfaldlega afgreitt að minnsta kosti hluta úr þessu frumvarpi því að við erum alls ekki ósammála öllu. Ég er reyndar mjög skeptísk á atriði eins og hljóðupptökur á ríkisstjórnarfundum. Ég efast um að þeir muni þá þróast í jákvæða átt. Það má deila um að það eigi að koma með þetta aðstoðarmannaákvæði núna þegar við erum alls staðar að hagræða. Við stöndum alls staðar frammi fyrir sársaukafullum niðurskurði og við verðum að fara í gegnum slíkan niðurskurð. Fyrr í kvöld hlustuðum við á Kastljósið með Margréti Frímannsdóttur sem talaði um að það vantaði vistunarúrræði fyrir fanga. Hæstv. innanríkisráðherra veit það manna best, yfirmaður löggæslumála, að það vantar fjármagn alls staðar.

Þriðja spurning mín er hvort þetta sé rétti tímapunkturinn til að forgangsraða fjármunum í þessa veru. Það væri ágætt að fá viðhorf frá hæstv. ráðherra um hvað knýi á um að þetta mál verði afgreitt. Ég vona svo innilega að á meðan ég flyt ræðu mína nái menn samkomulagi um að fara jákvætt yfir það tilboð sem þingflokksformenn míns þingflokks og þingflokks framsóknarmanna, hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir og Gunnar Bragi Sveinsson, lögðu fram fyrr í kvöld um ákveðna efnisþætti málsins. Ég held að það sé hægt að ná saman í þessu máli, það þarf ekki að fara fram með því offorsi sem mér hefur því miður þótt einkenna málflutning hæstv. forsætisráðherra og margra stjórnarþingmanna í þau fáu skipti sem þeir koma hingað upp í andsvörum. Þeir hafa nálgast stjórnarandstöðuna ómálefnalega, hafa allt að því uppnefnt fólk í ræðum þegar menn eru einfaldlega að takast á um málefni sem menn eru ekki sammála um. Ef einhver hefur reynslu af því að ræða hér málefnalega en mjög gagnrýnið sem stjórnarandstöðuþingmaður mál sem ríkisstjórn hefur sett fram og vill knýja fram breytingar er það hæstv. innanríkisráðherra sem var betri en enginn fyrir stjórnarandstöðuna þegar hann var þeim megin borðsins.

Nú eru tvær vikur í að haustþingið byrji og ég spyr enn þá sjálfa mig: Af hverju er ekki hægt að segja bara: Gott og vel, eftir að fjárlagafrumvarpið hefur verið lagt fram skulum við strax taka þetta mál til umræðu að nýju og meðferðar í þinginu? Þá er það sagt.

Ég er hrædd um að þessi tilflutningur á valdi frá þingi sem ótvírætt er verið að gera með þessu frumvarpi til forsætisráðherra, ekki til ríkisstjórnar, muni fela í sér ákveðna hættu á lausung og jafnvel geðþóttaákvörðun. Þó að ég trúi því ekki að óreyndu að forsætisráðherra muni beita þessu valdi sínu og færa málaflokk á milli af því að hann verði kannski ekki í takt við skoðanir allra ráðherra í ríkisstjórninni er valdið samt til staðar. Það er það sem mér finnst svo hættulegt. Hver sem verður forsætisráðherra hverju sinni mun fá meira vald en nokkur annar forsætisráðherra í sögu Íslands. Hann mun ekki fá nægt aðhald frá ráðherrum í ríkisstjórn því að þeir eru í rauninni háðir því hvaða valdi hann dreifir til þeirra. Þess vegna vil ég að þingið komi að þessu máli því að það hefur aldrei skaðað. Ég hef farið yfir þær breytingar sem hafa verið gerðar á Stjórnarráðinu og það hefur aldrei skaðað að þingið hafi tekið mál til meðferðar. Ég held frekar að málin hafi batnað við meðferð allsherjarnefndar. Þess vegna geld ég varhuga við því að þetta vald færist til eins einstaklings, hver sem hann er hverju sinni. Ég vil alls ekki að menn túlki þetta sem gríðarlega tortryggni þó að hún væri í fyllsta máta eðlileg gagnvart núverandi forsætisráðherra miðað við hvernig valdinu hefur oft og tíðum verið beitt, ég er að hugsa þetta til lengri tíma og þess vegna megum við ekki í einhverjum þrengingum núna á einhverjum hauststubbi, eins og hann er oft kallaður, þessi tími í þinginu, breyta Stjórnarráðinu eins og lögð er áhersla á af hálfu núverandi stjórnarflokka.

Fjórða spurningin sem mig langar að spyrja hæstv. innanríkisráðherra sem er líka fyrrum formaður BSRB, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, er hvaða skoðun hann hafi á áliti Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins. Í umsögn þess félags er spurt óbeint en mér finnst það mjög skýrt: Af hverju er ekki rétt að gefa þessu verkefni tíma því að svona allsherjarbreyting er langtímaverkefni?

Þegar við erum að breyta Stjórnarráðinu, ég tala nú ekki um stjórnarskránni sem er enn þá stærra mál, skipun á framkvæmdarvaldinu, er betra að það náist víðtæk sátt um slíkar breytingar, að menn reyni að hefja sig upp úr þeirri stöðu sem menn eru í hverju sinni, stjórn eða stjórnarandstöðu, og horfi á málið til lengri tíma litið, ekki út frá umhverfi dagsins í dag. Það er hættulegt og skammsýni er fólgin í slíkum breytingum.

Það væri líka forvitnilegt að fá viðhorf ráðherra til þess sem viðgengst í Finnlandi. Menn benda gjarnan til Norðurlandanna en það er eins og menn gleymi Finnlandi þegar þeir benda á Norðurlöndin. Við erum enn þá með þingræði þó að sumir kynnu að halda að tilteknir einstaklingar vildu breyta þeirri forgangsröðun. Ég er ekki að beina þessum orðum mínum til þeirra sem starfa innan Alþingis. Það að við erum með þingræði þýðir að við erum með stjórn sem styðst meðal annars við meiri hluta þingsins. Þegar ríkisstjórn í Finnlandi tekur til starfa er hennar fyrsta þingmál að leggja fram frumvarp um það hvernig stjórnarráðið á að vera það kjörtímabilið. Mér finnst það ekkert óeðlilegt. Þá kemur ákveðin stefna frá þeirri ríkisstjórn um hvernig hún sjái fyrir sér stjórnarráðið en um leið kemur þingið að því. Það er lykilatriði að þingið komi að því að móta stefnu til næstu ára fyrir stjórnarráðið. Mér þætti forvitnilegt að vita hvort ráðherra þyki leiðin sem Finnarnir fara álitleg.

Ég ítreka það sem ég hef sagt, margt af því sem kemur fram í þessu frumvarpi er alveg ágætt og ég þakka líka þeim tveimur þingmönnum stjórnarflokkanna sem hafa þó talað í þessu máli, hafa komið hingað upp og eru þeir einu sem hafa ekki komið hingað upp með miklum skætingi fyrir utan kannski sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra áðan. Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir og Álfheiður Ingadóttir fluttu alveg ágætar ræður. Ég er ekki sammála þeim en engu að síður sögðu þeir þingmenn margt athyglisvert sem kallar einmitt á að málið fari að nýju til efnislegrar meðferðar í allsherjarnefnd. Þetta mál er ekki fullbúið, við vitum það alveg eftir umræðuna hér í dag. Það er hægt að tala um kostnaðarmatið, kostnaðarumsóknina og allt þetta sem eru miklir ágallar. En það er annað sem er eins og ég segi sjálfsagðir hlutir samanber það hvernig fundum ráðherranefndar er hagað og hverjir eiga að fara með hvaða verkefni.

Uppskipting ráðuneyta og fjöldi þeirra ráðuneyta sem má skipa er annað mál. Allsherjarnefnd afnam vel að merkja í meðförum sínum hámark þeirra ráðuneyta sem geta verið starfandi. Frumvarpið kvað á um tíu, hvað segir ráðherra um það? Með þeirri breytingu sem allsherjarnefnd gerði fær forsætisráðherra takmarkalaust vald til að ákveða hversu mörg ráðuneytin verða. Forsætisráðherra gæti þess vegna með þessari heimild og þessari breytingu sagt: Ég ætla ekki að hafa nema eitt ráðuneyti. Hann fær þá heimild með þessari breytingu frá allsherjarnefnd. Hann getur ákveðið að ráðuneytin eiga að vera 12, 20 — eða eitt. Ég held að þessi breyting lýsi því mjög hversu vanhugsaðar allar þessar tillögur eru.

Hitt er líka að það er hægt að skipta upp ráðuneytum. Menn hafa tekið sem dæmi að það er hægt að skipta upp innanríkisráðuneytinu, að þar verði margir ráðherrar, eða að í utanríkisráðuneytinu verði margir jafnsettir ráðherrar. Hvernig hugnast hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) slíkar hugmyndir?

Að öðru leyti er margt eftir órætt og ég mun nýta það tækifæri við síðari ræður í kvöld en þakka fyrir að hæstv. innanríkisráðherra skuli vera í salnum.