139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:47]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Höfum það á hreinu að að minnsta kosti þrjár breytingar hafa átt sér stað á Stjórnarráðinu frá árinu 2009. Breytingarnar hafa átt sér stað út af því að umhverfið býður upp á það. Það er sjálfsagt að taka næstu skref sem eru nauðsynleg ef menn geta komið sér saman um þær breytingar. Ég tel þingið enga fyrirstöðu í því efni að fara málefnalega yfir það hvernig við sjáum sameiginlega fyrir okkur framkvæmdarvaldið þróast á næstu árum. Ég sé enga hættu eða ógnun þó að ríkisstjórnin sé veikburða, sumir segja sjálfsagt að hún sé komin að fótum fram, og það á ekki að vera ógnun við ríkisstjórnina að þingið komi að málinu, síður en svo. Eins og ég gat um í ræðu minni tel ég málin hafa batnað, ef eitthvað er. Ég man að þau gerðu það oft og tíðum í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem ég sat í, oftar en ekki bötnuðu málin sem ríkisstjórnin lagði fram í meðförum þingsins. Hvað er að því að viðurkenna slíkt?