139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:49]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að segja við hv. þingmann að ég deili ekki þeirri skoðun með honum að það hafi verið skynsamlegt á sínum tíma að sameina sjávarútvegsráðuneyti og landbúnaðarráðuneyti í eitt ráðuneyti. Ég held að þessum atvinnugreinum hefði verið betur borgið með því að sækja fram hvor með sitt ráðuneyti og með málaflokkana aðskilda.

Ég og hv. þingmaður erum hins vegar sammála um að mikilvægt er að Alþingi Íslendinga hafi eitthvað um þetta mál að segja og að þegar ráðist er í breytingar af þessu tagi séu það ekki einungis alþingismenn heldur einnig umsagnaraðilar utan veggja Alþingis sem fái að segja álit sitt. Eins og það er í lögunum í dag eru það einmitt hagsmunasamtök, félagasamtök, einstaklingar og aðrir sem geta veitt umsagnir um það hvort heppilegt sé að sameina ráðuneyti, færa verkefni milli ráðuneyta og annað því um líkt vegna þess að þetta þarf að gerast með lagasetningu sem felur í sér þrjár umræður í þinginu, umsagnarferli, gesti fyrir nefndir o.s.frv.

Nú á að fara að breyta út af þessu, með frumvarpinu sem hér er lagt fram. Af því að hv. þingmaður fór yfir það að um væri að ræða mikið valdaafsal frá Alþingi til framkvæmdarvaldsins og sér í lagi til hæstv. forsætisráðherra langaði mig til að spyrja hana hvort hún geri sér grein fyrir því hvað drífi þetta mál áfram og af hverju hæstv. forsætisráðherra leggi svo gríðarlega áherslu á að málið klárist einmitt núna. Í hvaða tilgangi telur hún að hæstv. forsætisráðherra ætli að nýta sér frumvarpið á næstunni?