139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:51]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst í andsvari sínu við mig kom hv. þm. Ásmundur Einar Daðason með mjög athyglisverðan punkt sem er einmitt umsagnaraðilar sem þingið leitar iðulega til. Þingið er ekkert hrætt við að fá álit almennings, að tala við frjáls félagasamtök, einstaklinga eða aðra til að fá álit þeirra á málum, umdeildum sem ekki.

Hvað gerist þegar við færum þetta vald til forsætisráðherra? Forsætisráðherra ber engin skylda til að fá álit Bandalags starfsmanna ríkis og bæja eða Bandalags háskólamanna eða viðhorf einhverra annarra varðandi sameiningar ráðuneyta, síður en svo. Þetta er ákveðin trygging fyrir því að þegar málið er í þinginu fáum við ekki bara álit 63 þingmanna heldur tryggjum við umræðu í samfélaginu um tilteknar þjóðfélagsbreytingar og við það eigum við ekki að vera hrædd. Við megum ekki vera hrædd við slíkt.

Ég hef svo sem oft tekið þátt í því að fara út í alls konar pælingar um það af hverju hinn og þessi ráðherrann er að gera hina og þessa skrýtnu hlutina. Það er stundum erfitt að reyna að detta inn í hugarheim allra ráðherra í ríkisstjórninni, hverjir sem þeir eru hverju sinni. Ég ætla ekki að taka þátt í því að tortryggja forsætisráðherra í þá veru sem margir hafa verið að ýja að, að þetta sé gert til að koma einum ráðherra úr ríkisstjórninni, reyna að koma honum í burt vegna eins ákveðins máls. Ég trúi því ekki að óreyndu.

Ég trúi því hins vegar að þetta sé mál sem er einfaldlega skrifað í kladdann og sé mál sem þarf að haka við áður en landsfundur Samfylkingarinnar hefst. Forsætisráðherra vill þá geta sagt: Við fórum í tilteknar breytingar á Stjórnarráðinu og þær eru búnar. Nú skulum við exa við það. Ég held að ekki sé dýpri merking í þessum breytingum, ég sé það að minnsta kosti ekki. En vel kann að vera að ég hafi rangt fyrir mér í því.