139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:56]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir ágæta og málefnalega ræðu. Hún spyr mig nokkurra spurninga.

Hún spyr fyrst um blaðafréttir þess efnis að ég hafi haft fyrirvara á gagnvart þessu máli í ríkisstjórn. Svarið er játandi. Það hefur áður komið fram og sá fyrirvari stendur enn. Þetta mál hefur átt sér langan aðdraganda og það er að sannast í þessu máli eins og með ávextina að þeir verða því betri þeim mun betur sem þeir fá að þroskast. Sú gagnrýni sem ég setti fram á sínum tíma við skýrslu Gunnars Helga Kristinssonar prófessors, sem frumvarpið er unnið upp úr, er þungamiðjan í gagnrýni minni á frumvarpið, þ.e. aukin miðstýring innan Stjórnarráðsins. Ég er andvígur henni og hef gagnrýnt það.

Þetta mál hefur verið að taka breytingum og á hugsanlega enn eftir að taka breytingum en það er mjög mikilvægt að okkur takist að tryggja víðtæka sátt um skipan Stjórnarráðsins og samskipti ríkisstjórnar og Alþingis.