139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:02]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Fram að þessu hefur okkur í umræðunni verið tamt að tala um annars vegar stjórnarandstæðinga og hins vegar stjórnarliða. Líklega verður að hætta þeirri orðanotkun vegna þess að þannig skipa menn sér ekki í fylkingar í þessari umræðu. Það er miklu nær að tala um þingræðissinna og svo þá sem vilja auka vald forsætisráðherrans eins á kostnað þingsins.

Sumir sem hafa verið þeirrar skoðanir, þeir sem við áður kölluðum stjórnarliða, hafa komið upp í andsvör, ekki tekið að ráði þátt í umræðunni en komið í andsvör til þess helst að skamma þingræðissinnana fyrir málþóf. Við höfum hins vegar kvartað undan því að hér hafi ekki fengist almennileg umræða, hæstv. forsætisráðherra fáist ekki til að svara grundvallarspurningum sem til hans er beint.

Engu að síður, þrátt fyrir að við fáum ekki svör frá hæstv. forsætisráðherra, hefur alveg ótrúlega margt nýtt og ótrúlega margt merkilegt komið fram í þessari umræðu að undanförnu og þá sérstaklega núna í kvöld og seint í gærkvöldi.

Seint í gærkvöldi hélt formaður þingmannanefndarinnar sem fór yfir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis stórmerkilega ræðu þar sem hann skaut í kaf allan málflutning talsmanna hæstv. forsætisráðherra í þessu máli, skaut í kaf þau rök að þetta hefði eitthvað að gera með ábendingar sem komu í kjölfar hrunsins, eitthvað með skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, og benti á að þvert á móti væri með þessum tillögum farið í þveröfuga átt, gegn grundvallaratriðunum í því sem við töldum að þyrfti að breyta eftir þessa miklu vinnu þingsins og rannsóknarnefndarinnar.

Í kvöld hefur svo hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra komið í andsvar við hv. þm. Birki Jón Jónsson og verður ekki annað sagt en hann hafi verið afgerandi. Hann talaði um harða valdbeitingu, sagðist hafa barist gegn slíkri valdbeitingu í áratug svo hann þekkir hana þegar hann sér hana. Hann sagði að í ljósi reynslu sinnar væri þetta ekkert annað en sams konar hörð valdbeiting. Rétt áðan kom hæstv. innanríkisráðherra í andsvar við hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, lýsti fyrirvörum sínum við þetta mál og út á hvað þeir ganga í grundvallaratriðum. Þeir ganga út á hættu af mikilli miðstýringu sem verið er að innleiða með frumvarpinu.

Þessu til viðbótar komu ákaflega mikilvægar ábendingar fyrr í kvöld. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður framsóknarmanna, benti á að í 1. gr. stjórnarskrárinnar sem ekki er löng segi að á Íslandi sé þingbundin stjórn. Það er með öðrum orðum tekið fram í 1. gr. stjórnarskrárinnar að þingið eigi að hafa valdið yfir ríkisstjórninni, ríkisstjórnin sitji í skjóli Alþingis. Við hljótum að velta því fyrir okkur ef við lesum þessa stuttu grein, 1. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, hvort þetta frumvarp standist stjórnarskrána. Það virðist að minnsta kosti ljóst að menn séu að einhverju leyti að fara á svig við hana með þessari tilraun til að gera vald forsætisráðherra Íslands meira en það hefur nokkurn tímann verið í sögu landsins.

Hversu mikið er þetta vald? Það er svo mikið að forsætisráðherra á hverjum tíma gæti samkvæmt þessu frumvarpi, verði það að lögum, ákveðið að ekki þyrfti nema einn ráðherra. Hann gæti ákveðið að þeir ættu að vera tíu, skipt milli þeirra verkefnum og fært þau svo fram og til baka eftir því sem hentaði, en gæti líka ákveðið að ráðherrann þyrfti í rauninni bara að vera einn, alræðisráðherra sem kæmi í stað forsætisráðherra. Þetta er heimilt samkvæmt því frumvarpi sem hér er ætlast til að þingið kokgleypi. Og þegar þingmenn gera athugasemdir við þetta hættulega frumvarp leyfa talsmenn hæstv. forsætisráðherra sér að koma í andsvör til þess eins að kvarta undan málþófi. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra útskýrði ágætlega áðan að það væri ekki með nokkru móti hægt að kalla þetta málþóf.

Hæstv. núverandi innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson hefur margoft, leyfi ég mér að segja, á undanförnum tveimur, þremur árum stigið fram og sagt hluti sem aðrir þorðu ekki að segja, hluti sem var erfitt fyrir ráðherra í ríkisstjórn að segja. Hver væri aðstaða hæstv. núverandi innanríkisráðherra til að stíga fram ef þetta frumvarp yrði leitt í lög? Þá byggi hann við það hlutskipti að hæstv. forsætisráðherra gæti ákveðið samstundis að taka af honum þau verkefni sem hann hefði tjáð sig um á þann hátt sem hæstv. forsætisráðherra líkaði ekki. Það er hætt við því að flestir ráðherrar mundu við þær aðstæður sleppa því að tjá sig á þann hátt sem þeir teldu að forsætisráðherranum væri ekki að skapi. Þeir gætu þá búist við því að í besta falli yrði málaflokkurinn tekinn af þeim, í versta falli yrði þeim einfaldlega skipt út, ráðuneytið jafnvel lagt niður. Það að fela einhverjum forsætisráðherra slíkt vald hlýtur að vera verulegt umhugsunarefni, hvað þá forsætisráðherra sem hefur margoft á undanförnum tveimur, þremur árum sýnt að hann hikar ekki við að beita öllu því valdi sem hann hefur samkvæmt stjórnarskrá, samkvæmt lögum og meira til, ganga langtum lengra en ætlast er til í lögunum. Á að veita slíkum forsætisráðherra slíkt vald? Á að veita einhverjum forsætisráðherra slíkt vald?

Ég efast ekki um að margir þingmenn gætu alveg hugsað sér að væru þeir forsætisráðherra Íslands væri gott að hafa þetta vald. (Gripið fram í: Nefndu þá.) (Gripið fram í.) Flestir þeirra 63 þingmanna sem sitja á Alþingi. Ef menn treysta ekki öðrum fyrir sams konar valdi, eiga þeir þá að krefjast þess fyrir sjálfa sig? Að sjálfsögðu ekki. Eitt hlýtur yfir alla að ganga. Þess vegna hljótum við þegar við erum að semja lög um stjórnarráð að semja lög sem við erum sátt við að eigi við um alla, sama hver fer með völdin hverju sinni. Það er einmitt þess vegna sem menn hafa iðulega leitast við að ná ekki bara víðtækri sátt og samstöðu heldur almennri samstöðu, eins og hæstv. innanríkisráðherra benti á áðan, þegar verið er að ræða um stjórnarráðsmál.

Þegar menn skrifuðu þau lög og samþykktu sem nú eru í gildi um Stjórnarráð Íslands 1968 og 1969 ríkti samstaða enda komu allir flokkar í stjórn og stjórnarandstöðu þar að máli. Allir gerðu sér grein fyrir því að þeir þyrftu að fylgja þessum sömu reglum þótt breytingar yrðu á því hvaða flokkar skipuðu ríkisstjórn. Á nú að innleiða það fyrirkomulag að hver og ein ríkisstjórn breyti lögum um Stjórnarráðið, breyti kannski þingsköpum líka? Megum við eiga von á því að sú ríkisstjórn sem nú situr með hæstv. forsætisráðherra sem virðist telja sér heimilt að stýra, ekki aðeins ríkisstjórninni heldur þinginu líka og störfum þess muni gera breytingar á þingsköpum í október eða nóvember, hlutast til um störf Alþingis til að koma í veg fyrir að menn ræði of mikið um mál sem hún telur brýnt að koma í gegn? Megum við sem sagt búast við því að þessi ríkisstjórn undir forsæti hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur muni nýta hvert tækifæri til að auka vald sitt á kostnað þingsins? Og hvað á þá næsta ríkisstjórn að gera? Á hún að haga sér með sama hætti? Nei, við getum ekki fetað þá braut. Þess vegna er grundvallaratriði að þingið, hópur þingræðissinna úr öllum flokkum á Alþingi, stöðvi þetta frumvarp. Við verðum að stöðva það helst með rökum, með því að útskýra fyrir hæstv. forsætisráðherra og talsmönnum hennar hvers vegna það virkar ekki. Umfram allt er það hlutverk okkar, við höfum tekið að okkur það hlutverk og svarið þess dýran eið að verja þingið og þingræðið svo við eigum ekki annan kost en að berjast gegn þessu frumvarpi og við munum halda því áfram uns yfir lýkur, (Forseti hringir.) uns þetta frumvarp verður dregið til baka eða lagað að því marki að það sé ásættanlegt til að viðhalda þingræði (Forseti hringir.) á Íslandi.