139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:33]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég ætla að ræða fundarstjórn forseta. Við höfum komið ítrekað upp og farið þess á leit að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra verði viðstödd þessa umræðu og svari þeim fyrirspurnum sem við höfum lagt fram. Ætli þær spurningar séu ekki nokkrir tugir, jafnvel nokkur hundruð spurningar sem lagðar hafa verið fram. Hæstv. ráðherrar sem bera ábyrgð á þessu máli eru að sniðganga þingið með svívirðilegum hætti að mínu viti með því að svara ekki þeim fyrirspurnum sem við höfum lagt fram.

Ég spyr af því að nú er verið að breyta lögum um Stjórnarráð Íslands: Er þetta það sem koma skal? Eru þetta þau vinnubrögð sem ríkisstjórnin ætlar að viðhafa hér? Á að keyra í gegn breytingar á þingsköpum þannig að hæstv. ráðherrar þurfi yfir höfuð ekkert að vera hér til svara?

Ég fer fram á það við frú forseta að hún tilkynni hæstv. ráðherrum að nærveru þeirra sé eindregið óskað. (Forseti hringir.) Það er ekki búið að biðja um nærveru (Forseti hringir.) þeirra einu sinni (Forseti hringir.) heldur ítrekað, frú forseti.