139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:39]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það að hæstv. ráðherrar skulu ekki koma hingað til að svara fyrirspurnum hv. þingmanna í máli þegar verið er að flytja valdheimildir frá Alþingi Íslendinga til hæstv. forsætisráðherra er náttúrlega eitthvað sem er ekki þinginu sæmandi og ekki bjóðandi.

Það er alveg merkilegt, frú forseti, að við þurfum að koma hingað og ræða þessi mál, spyrja spurninga en fá svo engin svör frá þeim hæstv. ráðherrum sem lögðu málið fram. Er þetta það sem koma skal? Á hæstv. forseti ekki að gæta að virðingu þingsins? Finnst hæstv. forseta það í lagi að þingmenn komi hingað og spyrji þann sem flutti málið upphaflega, hæstv. forsætisráðherra, margra spurninga en hún svari síðan ekki þeim spurningum? Er það bara látið óátalið? (Forseti hringir.)

Ég spyr: Ætlum við að standa vörð um Alþingi Íslendinga og efla það eða ætlum við virkilega (Forseti hringir.) rétt eins og lagt er til í frumvarpinu (Forseti hringir.) að efla framkvæmdarvaldið?