139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:44]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, 8. bindi, á bls. 180 segir, með leyfi forseta:

„Mikið ráðherraræði eykur líkurnar á gerræðislegum ákvörðunum sem efla vald viðkomandi stjórnmálamanns. Þetta helst gjarnan í hendur við þrönga sýn á lýðræðið sem felst í því að stjórnmálamenn beri verk sín reglulega undir dóm kjósenda og þess á milli eigi þeir að hafa frjálsar hendur um það hvernig þeir fara með völd sín, svo lengi sem þeir halda sig innan ramma laganna. Þetta er afar þröng sýn á lýðræðislegt lögmæti stjórnarhátta. Það er mikilvægur hluti af lýðræðislegum stjórnarháttum að haga ákvörðunum stjórnvalda jafnan þannig að þær standist skoðun og séu teknar í sæmilegri sátt við þá sem málið varðar. Frá því sjónarmiði séð krefjast lýðræðislegir stjórnarhættir þess að mál séu faglega undirbúin, ígrunduð og vel kynnt, en ekki bara að verk stjórnmálamanna séu lögð í dóm kjósenda í lok kjörtímabils.“

Hv. þm. Atli Gíslason hélt hér í fyrrinótt ákaflega merkilega ræðu og þessi tilvitnun sem ég las hér er tekin upp úr ræðu hans. Hv. þingmaður spyr sig, með leyfi forseta:

„Skyldi maður geta mátað þessar niðurstöður rannsóknarskýrslunnar við þetta frumvarp?“

Og hann svarar þeirri spurningu játandi.

Hv. þm. Atli Gíslason hefur það kannski fram yfir okkur marga þingmenn hérna að hafa þurft að hugsa meira og dýpra um þessi mál en við hin vegna þess starfa sem hann gegndi í kjölfar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Hann veitti þingmannanefndinni svokölluðu forstöðu. Í ræðu sinni sem var mjög vönduð kemst hv. þm. Atli Gíslason að því að það frumvarp sem hér er til umfjöllunar stangist í mörgum meginatriðum á við þau sjónarmið sem er lýst í skýrslu rannsóknarnefndar sem þingmannanefndin tók undir og var samþykkt síðan ályktun á Alþingi með 63 atkvæðum þingmanna sem allir voru sammála um, þ.e. að stjórnmálahefðin þurfi að taka breytingum og að það þurfi að efla Alþingi gagnvart framkvæmdarvaldinu.

2. gr. í því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar um Stjórnarráð Íslands gengur þvert á þetta þar sem ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands skuli vera ákvörðuð samkvæmt tillögu forsætisráðherra og með einföldum forsetaúrskurði. Þetta þýðir að miðstýring í Stjórnarráðinu mun aukast til mikilla muna og að skipun ráðuneyta verður algjörlega háð geðþótta forsætisráðherra.

Í nefndaráliti 1. minni hluta um þetta mál er talað um þá tvo megingalla sem eru á frumvarpinu, að um sé að ræða tilflutning valds frá Alþingi til ríkisstjórnarinnar og þá einkum forsætisráðherra og að það hljóti að teljast meiri háttar ákvörðun um fyrirkomulag æðstu stjórnar ríkisins hvaða ráðuneyti eru starfandi á hverjum tíma. Í öðru lagi kemur fram í nefndarálitinu að frumvarpið auki hættu á lausung og jafnvel geðþóttaákvörðunum í sambandi við skipan ráðuneyta. Við skulum af því tilefni, út af þessari niðurstöðu 1. minni hluta, rifja upp þessi orð sem koma fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, með leyfi forseta:

„Mikið ráðherraræði eykur líkurnar á gerræðislegum ákvörðunum sem efla vald viðkomandi stjórnmálamanns. Þetta helst gjarnan í hendur við þrönga sýn á lýðræðið …“ Allt ber þetta að sama brunni, þ.e. að hér er til umfjöllunar frumvarp sem gengur þvert á það sem stjórnmálamenn sammæltust um að gera, að leitast við að auka vald Alþingis, og gengur þvert á þá skoðun höfunda skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að ráðherraræðið auki líkurnar á gerræðislegum ákvörðunum.

Ég held að það sé með engu móti hægt að mótmæla þeirri skoðun sem hefur komið fram í fjölmörgum ræðum undanfarna sólarhringa að hér sé verið að færa forsætisráðherra óhófleg völd á kostnað Alþingis. Þetta eykur miðstýringu innan Stjórnarráðsins og færir forsætisráðherra á hverjum tíma óeðlilega mikil völd. Það eru fleiri hlutir sem hægt er að gera athugasemdir við hérna en hafa ekki jafnafdrifaríkar afleiðingar, en hafa þó afleiðingar. Það eru hlutir eins og fjölgun aðstoðarmanna, það kom fram hér í ræðu hv. þm. Bjarna Benediktssonar að kostnaður við að það gæti legið á bilinu 100–200 milljónir. Það eru 100–200 milljónir sem hægt væri að nota til miklu þarfari hluta en að hlaða pólitískum pótintátum inn í ráðuneytin. (BJJ: Svo er verið að segja upp fólki á gólfinu.) Hv. þm. Birkir Jón Jónsson bendir á það réttilega að til þess að megi fjölga þessum aðstoðarmönnum handa ráðherranum þurfi að segja upp fólki á gólfinu, eins og hann orðaði það.

Til þess að ráða aðstoðarmenn ætlum við að segja upp fleirum til dæmis á Landspítalanum. Af hverju ekki að minnka þjónustuna á Landspítalanum aðeins þannig að við getum hlaðið pólitískum pótintátum í kringum ráðherrana?

Ekki er nú mikill sparnaður í þessu. Og hagræðið er fyrst og fremst fyrir forsætisráðherrann sem getur deilt og drottnað yfir Stjórnarráðinu ef þetta verður óbreytt að lögum, jafnframt sem hún nær óeðlilegum völdum yfir ráðherrunum í ríkisstjórn sinni, þ.e. að menn skuli hafa sig hæga annars verði bara búið til nýtt ráðuneyti og völdin tekin af þeim.

Það eru fleiri hlutir, ég geri athugasemdir við hluti sem virka kannski smávægilegir — hér er lagt til að farið verði að hljóðrita ríkisstjórnarfundi og að upptökurnar verði geymdar í 30 ár og að eftir það verði þær gerðar opinberar. Við heyrðum árangur af slíku í kvöldfréttum þar sem Jacqueline Kennedy talaði um Martin Luther King á merkilegan hátt. Ég ætla kannski ekki að gera það að umfjöllunarefni hér, heldur afleiðingarnar af því að ríkisstjórnarfundir verði hljóðritaðir. Það er augljóst að það verður til þess að ríkisstjórnarfundir verða afgreiðslustofnun fyrir hluti sem eru ákveðnir í reykfylltum bakherbergjum. Það er algjörlega ljóst að menn munu passa mjög það sem þeir segja á ríkisstjórnarfundum ef þeir verða hljóðritaðir, velta ekki upp skoðunum sínum á sama hátt og þegar hægt er að tala frjálst sem leiðir að lokum til verri ákvarðanatöku og ákvarðanatöku sem fer ekki fram undir beru ljósi. (BJJ: Og ekki er nú á það bætandi.) Og ekki er nú á það bætandi, bendir hv. þm. Birkir Jón Jónsson á. Eins og alltaf hefur hann rétt fyrir sér í því máli.

Mér þótti merkilegt að hlusta á ræðu hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur. Hún kom fram með punkt sem ég talaði um í fyrri ræðu minni, sem ég er algjörlega sammála henni um en ég er samt ekki sammála um hvert niðurstaðan leiðir. Eins og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir orðaði það, siðferðireglurnar búa innra með manni, maður öðlast ekki siðferði við að lesa reglur á blaði, langt því frá, en eins og hv. þingmaður benti á má vel vera að einhverjir hafi þá skoðun að maður geti öðlast siðferði með því að lesa reglugerð, og þeir um það, en ég er ekki sammála hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur að vegna þess að einhverjir eru þessarar skoðunar eigum við að taka upp þann sið að skrifa niður það sem á að vera okkur öllum inngróið, þ.e. þekking á grundvallarsiðferðisreglum þjóðfélagsins.

Svo er annað mál að ef menn halda að það að skrifa reglur á blað bægi frá hættunni á því að siðblindingjar brjóti siðferðilög held ég að það sé mjög mikill misskilningur. Ég held að þeir sem eru tilbúnir að brjóta siðferðilegar reglur séu tilbúnir til þess, sama hvort reglurnar eru skrifaðar eða óskrifaðar. Allar, nákvæmlega eins og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir benti á, siðferðireglurnar búa innra með okkur. Þær höfum við öðlast í gegnum það að upplifa þær í stofnunum samfélagsins, t.d. kirkjunni, inni á heimilinu, í skólanum og annað slíkt, foreldrar okkar hafa stutt okkur fyrstu skrefin í því að öðlast þessar siðferðireglur, síðan er okkur kennt það, þeir sem eru trúaðir öðlast margar siðferðireglur í gegnum trúna en aðrir öðlast sömu reglur í gegnum aðrar leiðir o.s.frv.

Það að sett sé á samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna held ég að breyti engu um hversu siðlegir hlutirnir verða. Ég held að þetta sé nákvæmlega sama marki brennt og þegar endurskoðuð voru lög um fjármálamarkaði fyrir einu og hálfu eða tveimur árum, og ég benti mjög rækilega á að þar var farið yfir reglur á fjármálamarkaði og krukkað í eitthvert smotterí. Ef það hafði verið fyrirsögn í blaði sem passaði við lögin var krukkað í það, svo var það samþykkt og svo veifaði þáverandi viðskiptaráðherra lögunum og sagði: Nú höfum við endurskoðað reglur á fjármálamarkaði og nú á okkur að líða betur. Það var algjör blekking, það var rétt snert yfirborðið á því sem þurfti að fjalla um og nú erum við með reglur á fjármálamarkaði sem eru þannig að það er hægt að gera nákvæmlega sömu mistök aftur og gerð voru í aðdraganda fjármálahrunsins.

Það að skrifa siðferðileg viðmið á blað og stofna samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið hefur ekkert með það að gera hversu mikið siðferði ríkir í stjórnmálum eða rekstri hins opinbera.

Mig langar að lokum að minnast hér á eitt atriði og það er þetta með stofnun ráðuneyta. Ég held að sú lausung sem það getur skapað geti haft afdrifaríkar afleiðingar og ég er með ágætisdæmi um það. Það dæmi er frá stofnun efnahagsráðuneytisins hér fyrir nokkru. Þegar efnahagsráðuneytið var stofnað var efnahagsskrifstofa fjármálaráðuneytisins færð inn í það ráðuneyti og það átti að búa til kjarna í efnahagsráðuneytinu sem mundi sjá um efnahagsspár og annað slíkt. Síðan var Hagstofan styrkt líka til að sinna þessu hlutverki. Í heilt ár var hagspám og hagfræðilegum greiningum mjög ábótavant og hægt er að færa fyrir því mjög góð rök að svo sé enn þá. Þegar stofnun er lögð niður eða algjörlega skipulögð frá grunni og færð til og annað slíkt er algjörlega ljóst að það tekur tíma að koma upp þekkingunni aftur, við skulum bara segja þekkingunni á því að gera þá hluti sem þeirri stofnun er falið. Ég held að það að vera að kippa ráðuneytum út og suður geti í sjálfu sér aukið á glundroða, að ég tali ekki um eins og sagði í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að líkurnar á gerræðislegum ákvörðunum eru þá auknar.

Ef ég á að leggja mat á þetta frumvarp í heild sinni er ljóst að 2. gr. verður að breytast til að hægt sé að sætta sig við það að þetta frumvarp verði að lögum. Sú breyting gæti verið eftir nokkrum leiðum, t.d. mætti einfaldlega fella í burt 2. gr., í öðru lagi væri hægt að gera það þannig að forsætisráðherra kæmi með þingsályktunartillögu inn í þingið og málið fengi þar sína hefðbundnu meðferð. Ef það væri er ekki hægt að segja að ákvarðanir geti lotið einhvers konar gerræði og þá er ekki hægt að segja að búið sé að taka völd af Alþingi.

Síðan eru þessir smáhlutir, ég verð að segja að ég er að nokkru leyti sammála hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur að ef einhverjum líður betur með að skrifa siðferðileg viðmið á blað mega menn það. Þetta með kostnaðinn við aðstoðarmenn og annað slíkt, ég held að menn ættu að endurskoða það og fella út.

Alveg að lokum, í þessu frumvarpi eru auðvitað ágætishlutir innan um en það þarf að laga þessa megingalla sem ég hef hér lýst.