139. löggjafarþing — 164. fundur,  16. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[00:17]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er athyglisverð skýring hjá hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni um skýrslu rannsóknarnefndarinnar sem vissulega dregur fram það sem gerðist á Íslandi í aðdraganda hrunsins þó að vissulega lýsi hún ekki afleiðingum þess sem þá gerðist.

Ég mismælti mig aðeins áðan, það er rangt hjá mér að segja að saga Sjálfstæðisflokksins hafi verið skrifuð í átta bindum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, það eru víst níu bindi, ég gleymdi einu en vil halda því til haga. Þar má finna alla þá mestu pólitísku og siðferðilegu bresti sem var að finna í íslenskum stjórnmálum. Að kalla það hina stóru lygi finnst mér helvíti stórt orð, virðulegi forseti — (Forseti hringir.) ég dreg orð mín til baka og biðst afsökunar á þeim fyrir fram. Ég skal gæta orða minna en meiningin var samt sem áður þessi (Gripið fram í.) í því sem ég sagði. Það að kalla skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og umfjöllun hennar um hrunið, um þann siðferðisbrest, það siðferðislega hrun íslenskra stjórnmála og hugmyndafræði sem þá varð, stóra lygi finnst mér gríðarlega alvarleg ummæli af hálfu þingmanna. Stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar urðu uppvísir að gríðarlegri spillingu þar sem stjórnkerfi, stjórnmálin og viðskiptalífið á Íslandi tengdust mjög óeðlilegum böndum. Spillingin grasseraði í því stjórnkerfi sem sömu aðilar hafa verið hér í dag og síðustu daga og eru einmitt á þessari stundu að verja og óttast að verði breytt. Þeir hræðast breytingar á því kerfi þar sem þeir féllu sjálfir ofan í það spillingarfen sem var opinberað í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og þingmaðurinn kallar hina stóru lygi.