139. löggjafarþing — 164. fundur,  16. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[00:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er afar ánægjulegt að sjá hve stjórnarliðum líður vel í kvöld, þetta verður skemmtileg og góð nótt. (JónG: Tilbreyting.) Hv. þingmaður ræddi hér lausnir, nefndi reyndar töluvert atvinnumálin í ræðu sinni um Stjórnarráðið en engu að síður er mikilvægt að tengja þetta saman. [Kliður í þingsal.] (Forseti hringir.)

(Forseti (RR): Forseti biður hv. þingmenn og hæstv. ráðherra að gefa þingmanninum hljóð.)

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi heyrt hér andsvör tveggja ráðherra, innanríkisráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, þar sem kom skýrt fram í máli þeirra að þeir styddu ekki það frumvarp sem hér er til umræðu. Þetta hljóta að vera nokkuð merkileg tíðindi að ráðherrar standi ekki að baki frumvarps sem forsætisráðherra og ríkisstjórnin er með í þinginu. Það hlýtur að vera áhyggjuefni. Við hljótum líka að velta því fyrir okkur hvers vegna í ósköpunum sé verið að böðlast með þetta mál í þinginu þegar ljóst er að ekki er stuðningur við málið innan ríkisstjórnarinnar. Er það venjan eða er verið setja hér ný viðmið að ríkisstjórnin, sem hlýtur yfirleitt að reyna að koma sér saman um sín mál, treysti eingöngu á þingið þegar kemur að stórum málum?

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort það hafi komið honum á óvart að þessir hæstv. ráðherrar séu á móti frumvarpinu og hvort hann telji ekki rétt að stjórnarflokkarnir setjist niður og gái hvort þurfi ekki að breyta frumvarpinu þannig að ríkisstjórnin geti öll staðið á bak við málið. Ég hugsa að það væri betra og við gætum þá hugsanlega fellt okkur jafnvel fleiri við það.