139. löggjafarþing — 164. fundur,  16. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[00:33]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað á að vinna svona frumvörp þannig að um þau verði sem víðtækust sátt en ekki með þeim vinnubrögðum sem hæstv. ríkisstjórn sýnir af sér í þessu máli og svo mörgum öðrum. En ég ber svo sem ekki mikla von í brjósti um það, virðulegi forseti, að einhverjar tilraunir verði gerðar til slíks, hvorki að ná sátt um þetta á stjórnarheimilinu né sátt sem við í stjórnarandstöðunni teljum okkur þurfa að ná til að geta sætt okkur við til að ljúka þessu máli. Ég ber ekki mikla von í brjósti um að það gerist alveg strax. Á meðan munum við auðvitað standa vaktina og nýta þann rétt okkar að fjalla um þetta mál á breiðum vettvangi, eins og ég hef gert, og tengja saman ýmsa þætti í því sem er svo mikilvægt í samfélagi okkar í dag.

Það er þannig, virðulegi forseti, að hv. þingmenn Samfylkingarinnar, sem hafa verið flissandi í þingsal í kvöld yfir þessum alvarlegu málum og er til marks um það hversu léttúðugt þetta virðist allt vera í þeirra huga, að [Kliður í þingsal.] — ég skora á virðulegan forseta að gefa hæstv. ráðherra Árna Páli Árnasyni bara orðið, honum er mikið í mun og mikið mál og ég er tilbúinn til að víkja ef hann þarf að komast að. Það er þannig, virðulegi forseti, að þessir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar hafa aðeins eina dagskrá núna í störfum Alþingis og það eru aðildarviðræður að Evrópusambandinu. Þeir eru tilbúnir til þess, þeir hafa sýnt það, að fórna öllum hagsmunum þjóðarinnar, öllum öðrum hagsmunum skal fórnað á altari aðildarviðræðna við ESB. (Forseti hringir.) Það er ekki flóknara en það. Þetta frumvarp ber auðvitað keim af því að greiða leið fyrir þeim viðræðum. (Forseti hringir.) Þessi asi væri ekki á þessu máli nema það tengdist því (Forseti hringir.) og þá er ekki hægt að draga aðra ályktun en að það hafi algeran forgang í öllum þeirra málflutningi og allri þeirra hugsun.