139. löggjafarþing — 164. fundur,  16. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[00:37]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að það eigi alls ekki að fara þá leið að sameina þessi ráðuneyti í eitt atvinnuvegaráðuneyti. Á sínum tíma var þessu skipt upp einmitt vegna mikilvægis þessara atvinnugreina í samfélagi okkar. Sjávarútvegurinn, alveg sérstaklega, er undirstöðuatvinnugrein hér og það mikilvæg að það er mjög eðlilegt að um sjávarútveg og landbúnað sé eitt ráðuneyti. (MÁ: Hvalveiðar.) Iðnaður er auðvitað vaxandi grein, og ég fór yfir það áðan í ræðu minni, virðulegi forseti, hversu gríðarleg tækifæri okkar þjóð og samfélag hefur til endurreisnar ef teknar eru réttar ákvarðanir strax til að koma okkur af stað á þeim vettvangi og að fara að setja það inn í eitthvert eitt ráðuneyti er ekki rétta leiðin.

Ég hef sagt það og ég stend við þá skoðun mína, virðulegi forseti, að leggja megi umhverfisráðuneytið niður og hafa um það deildir í atvinnuvegaráðuneytunum. Ég held að það væri hin rétta leið, þar væri hægt að spara.