139. löggjafarþing — 164. fundur,  16. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[00:51]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir að taka svo vel eftir ræðum mínum. Hann er reyndar sá eini af þessum þingmönnum sem var í salnum þannig að það er ástæða til að endurtaka hér að hluta til þær ræður sem hafa verið fluttar þannig að hv. þingmenn sem eru komnir hingað núna til að skemmta sér geti þá fengið boðskapinn sem hér hefur verið fluttur. Ekki hafa þeir sést svo margir í þingsalnum, virðulegi forseti, síðan þessi umræða hófst og enginn þeirra hefur tekið til máls nema kannski hv. þm. Mörður Árnason sem hefur tekið til máls í andsvörum.

En ég ætla að nota tækifærið, virðulegi forseti, og koma frekar að þessari góðu skýrslu sem ég á eftir að nota í fleiri ræðum mínum um þetta mál því að sú skýrsla er mér alveg sem biblía. Þessi skýrsla frá Landsvirkjun er mér sem biblía um það hvernig við getum hagað endurreisn í íslensku samfélagi og hvernig við getum staðið undir velferðarkerfi okkar og þeim eyðsluseggjum sem ég vil segja að séu núna við völd og sannast í raun á því frumvarpi sem hér er til umræðu.

Eitt af því sem ég var ekki búinn að minnast á í þessu eru þær virkjanir sem Landsvirkjun reiknar með að fara í til að standa undir þessum framkvæmdum. Það er nefnilega þannig, virðulegi forseti, að þær eru allar í nýtingarkafla rammaáætlunar, það er svo merkilegt, þannig að um þetta þarf ekki að vera mikill ágreiningur. Þar er að nefna t.d. Búðarháls og Bjarnarflag, Urriðafoss, Hvamm, Bjarnarflag 2, Þeistareyki 1 og 2 og Kröflu 1. Þetta eru fyrstu skrefin, þetta eru fyrstu virkjanirnar sem þarf að taka ákvörðun um og þyrfti að taka ákvörðun um á þessu ári í ákveðinni framkvæmdaröð til að verkefnin geti farið af stað. (Forseti hringir.) Þá geta hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna farið að koma með frumvörp eins og það sem hér er (Forseti hringir.) sem er til kostnaðarauka á kostnað samfélagsins, (Forseti hringir.) á kostnað skuldugra heimila, á kostnað eldri borgara og öryrkja í landinu.