139. löggjafarþing — 164. fundur,  16. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[00:56]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil lýsa yfir stuðningi við fundarstjórn forseta þegar klukkan er að verða eitt að nóttu. Þannig vildi til áðan að hópur samfylkingarmanna birtist allt í einu í þingsalnum, einir sex þingmenn Samfylkingarinnar, sem er fáséð í þessari umræðu, enda hefur nær enginn þeirra lagt orð í belg í henni. Umfangið var slíkt þegar þeir örfáu þingmenn Samfylkingarinnar komu í salinn að hæstv. forseti varð að fresta fundum vegna óláta þingmanna Samfylkingarinnar í umræðunni. Nú má Samfylkingin ekki taka það þannig þó að við séum að kalla þau hingað í þingsal og biðja þau að taka þátt í umræðunni að annar fundur eigi að vera annars staðar í salnum, vettvangurinn á náttúrlega að vera hérna. Ég held því í ljósi þess hvernig Samfylkingin er stemmd þá væri rétt að frú forseti mundi fresta þessum fundi fram á næsta morgun eða morgundaginn þannig að þingmenn Samfylkingarinnar komi (Gripið fram í: Við komum …) glaðir og reifir til umræðunnar og kannski af meiri yfirvegun en þeir hafa sýnt hér í sölum (Forseti hringir.) Alþingis á þessari nóttu.