139. löggjafarþing — 164. fundur,  16. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[00:59]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég er kannski ekki alveg sammála félögum mínum sem hafa komið hér áður út af þessari uppákomu í þingsal. Ég vil miklu frekar hafa þingmenn Samfylkingarinnar í sinni réttu mynd í þingsalnum en ekki. Mér finnst þó skárra að hafa þau hérna hlæjandi og flissandi og sýna þar með sinn innri mann hversu alvarlega þau taka þessi mál heldur en að þau séu ekki við umræðuna, vegna þess að það er þá kannski einhver vonarglæta til þess, virðulegi forseti, að eitthvað síist inn. Hv. þm. Mörður Árnason getur síðan hafið húslestur hjá þeim á þingflokksfundum til þess að fylgja svona hlutum eftir.

Ég vil því hvetja virðulegan forseta til að sýna hv. þm. Samfylkingarinnar svigrúm í þessu efni núna þannig að þau geti verið hér áfram og skemmt sér og tekið þátt í þessu með okkur, kannski gæti það orðið til þess að einn og einn hv. þingmaður læddi sér í pontu og tæki til máls (Forseti hringir.) og svaraði einhverjum af mörgum fyrirspurnum sem fram hafa komið.