139. löggjafarþing — 164. fundur,  16. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[01:02]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Forseti kom inn á það sem ég ætlaði einmitt að fara að tala um. Ég held að forsetinn hefði átt að ávíta hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir að kalla Alþingi Íslendinga leikhús fáránleikans. (ÓÞ: Getið þið ekki haft rétt eftir?) Ef ekki er ástæða til að ávíta ræðumann fyrir slíkt þá veit ég ekki hvenær tækifæri eða ástæða er til að gera það. Þetta sýnir kannski það hvaða virðingu Samfylkingin ber fyrir Alþingi, enda miðast öll frumvörp við það að kratavæða Stjórnarráðið, koma bæði fjármagni og mannafla inn í þau ráðuneyti þar sem þeir sjálfir starfa.

Mig langar líka að minnast á það, úr því ég er stödd hér undir þessum lið, að mér finnst það til skammar sem einn hv. þingmaður, hv. þm. Margrét Tryggvadóttir, lét hafa eftir sér í fjölmiðlum í morgun að hún skammaðist sín fyrir að vera þingmaður. Ég tel að þeir þingmenn sem skammast sín fyrir starf sitt eigi að segja af sér og hleypa varamönnum að. Nú verðum við að fara að hefja virðingu Alþingis upp á nýtt plan.