139. löggjafarþing — 164. fundur,  16. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[01:03]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Fyrst vil ég segja vegna ræðu hv. þm. Jóns Gunnarssonar, sem hér var flutt, að miðað við þær móttökur sem sú ræða fékk er ég tilbúinn að beita mér fyrir því að við sjálfstæðismenn lánum Jón Gunnarsson til Samfylkingarinnar í upphafi hvers þingflokksfundar þar og hann lesi þessa ágætu ræðu yfir þingflokknum af því hún er uppfull af þeim ágæta framkvæmdamóð sem þarf að fylla í brjósti stjórnarliða til að við komum hinum margfrægu hjólum atvinnulífsins af stað. Þannig að boðið stendur. Ég reikna með að hv. þm. Jón Gunnarsson muni fallast á þetta. Þetta býð ég að honum forspurðum, ég vil taka það fram. Væntanlega hefur þingmaðurinn neitunarvald.

Frú forseti. Í upphafi máls míns vil ég ræða aðeins það dagskrárvald meiri hlutans sem skiptir svo miklu máli þegar kemur að þeim brag sem er á þingstörfum. [Kliður í þingsal.] Það sem skiptir máli fyrir okkur þingmenn og um leið fyrir þjóðina hvaða bragur og skipulag er á þingstörfunum. Ég verð að segja, frú forseti, að tíminn hafi ekki verið nýttur nægjanlega vel síðastliðið vor til að skipuleggja þau þingstörf sem nú standa yfir. Það hefði verið nauðsynlegt að fyrir lægi samkomulag á milli ríkisstjórnarflokkanna annars vegar og stjórnarandstöðunnar hins vegar hvernig skyldi farið nákvæmlega með þessa fáu þingdaga til að klára mörg þau mál sem skipta verulega miklu máli á þessum svokallaða stubbi. Það er vont að við skulum standa í þessum deilum. Dagarnir líða og það eru fjölmörg mál sem bíða afgreiðslu og þurfa að fá afgreiðslu. Við hefðum getað komist undan þessu ef slíkt samkomulag hefði legið fyrir strax síðastliðið vor.

Ég vil líka vekja athygli á því að í ræðu sinni hér áðan lýsti formaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarni Benediktsson, því yfir að hann gerði ríkisstjórnarflokkunum það tilboð að gera hlé á þessari umræðu og taka strax fyrir ýmis þau mál sem nú eru á dagskrá og eru mikilvæg þjóðþrifamál sem þarf að klára, afgreiða þau með hraði og halda síðan áfram umræðu um þetta mál. Nauðsynlegt er að það ríki skilningur á því að það er deila um þetta mál en hægt er að ná góðu samkomulagi um mörg önnur mál sem nú þegar eru komin á dagskrá. Hví skyldum við ekki, úr því svo mörgum hv. þingmönnum hefur orðið tíðrætt um virðingu þingsins, sýna af okkur þann þroska að gera hlé á þessari umræðu, afgreiða þau mál sem getum náð sátt um og erum sammála um í grunninn, ganga frá þeim málum og halda þá áfram að ræða þetta mál ef það liggur svo ósköp mikið á að klára það? Reyndar tel ég og hef fært fyrir því rök áður í ræðu að það sé engin sérstök ástæða fyrir því að flýta okkur að klára þetta mál. Það er ekkert í þessu máli sem er þannig vaxið, frú forseti, að það kalli á að það sé klárað samstundis. Það eru önnur mun brýnni mál sem við þurfum að takast á við. (Utanrrh.: Af hverju eruð þið þá að tala svona mikið?) Hér spurði hæstv. utanríkisráðherra af hverju við værum að tala svona mikið. Það er ágæt spurning og á alveg rétt á sér. Það er vegna þess, frú forseti, að við erum ekki sammála um þetta mál. En eftir stendur það tilboð sem hv. þm. Bjarni Benediktsson hefur gefið, formaður Sjálfstæðisflokksins, að við gerum hlé á þessari umræðu og tökum fyrir þau mál sem við getum náð góðri sátt um og þarf að klára og er mjög mikilvægt að klárist. Þar undir er einmitt virðing þingsins.

Hvað varðar góða sátt er mikilvægt að það ríki áfram skilningur í sölum þingsins þrátt fyrir að við tökumst harkalega á að í grunninn skiptir svo miklu máli í lýðræðissamfélagi að menn kunni að ná fram málamiðlun, kunni að ná fram sátt í erfiðum málum. Það á alveg sérstaklega við þegar við erum að ræða um jafnmikilvægan þátt og Stjórnarráðið, skipan þess og fyrirkomulag, og ég tala nú ekki um grunnlög samfélagsins, sjálfa stjórnarskrána. Um þessa hluti þarf og verður að ríkja góð pólitísk sátt.

Það er enginn bragur á því, frú forseti, að fara fram með þessa breytingar sem hér er verið að ræða í svo mikilli ósátt. Það væri allt annar bragur á því ef við tækjum nú höndum saman og gerðum samkomulag um það að ljúka þessari umræðu, gera hlé á henni, og tækjum málið aftur upp strax á nýju þingi því að það er ekkert sem hastar. Ég vek athygli á því að það hefur ekki komið fram hjá einum einasta stjórnarþingmanni sem ég hef heyrt í sem hefur fjallað um þetta mál að það liggi á, að brýn nauðsyn sé að klára það núna. Það hefur enginn stjórnarliði fært fyrir því rök. Ef svo er og mér hefur yfirsést það lýsi ég eftir þeim rökum.

Frú forseti. Ég gerði hina svokölluðu finnsku leið að umræðuefni í síðustu ræðu minni en ég tel að hún nái þeim tilgangi sem þær lagabreytingar sem hér liggja fyrir leggja upp með og mæti um leið þeirri kröfu sem við gerum til þess að það ríki formfesta um alla stjórnskipanina og um skipan verkefna Stjórnarráðsins. Þegar maður lítur til þeirrar stefnuyfirlýsingar sem núverandi ríkisstjórn lagði fram í upphafi er áhugavert að skoða hvernig hefði verið hægt að standa að málum ef við værum búin að tileinka okkur t.d. þá aðferðafræði sem ég lýsti áðan.

Í stefnuyfirlýsingunni kemur eftirfarandi fram og vil ég vitna í yfirlýsinguna, með leyfi forseta:

„Víðtækt samráð verður haft við starfsfólk, almenning og hagsmunaaðila og leitast við að skapa almennan skilning og samstöðu um nauðsyn þessara breytinga.“

Hvaða breytingar eru það, frú forseti? Það eru stjórnkerfisbreytingar og umbætur í því skyni að bæta þjónustu hins opinbera. Hér erum við að ræða stjórnkerfisbreytingar. Í stefnuyfirlýsingunni er í það minnsta fullur skilningur á því að það verði og það sé nauðsynlegt að ná samstöðu um slíkar breytingar.

Í stefnuyfirlýsingunni eru taldar upp þær breytingar sem ríkisstjórnin vill beita sér fyrir á Stjórnarráðinu, hvaða verkefni eigi að vera undir hvaða ráðuneyti, hvernig eigi að sameina ráðuneyti, hvernig eigi að fækka þeim o.s.frv. Það er einmitt dæmi um það sem ég tel að eigi að koma fram í stjórnarsáttmála. Síðan hefði verið eðlilegt þegar komið var fylgi við stjórnarsáttmálann, þegar þingmenn flokkanna höfðu gengist undir hann og samþykkt, að flytja frumvarp með öllum þessum breytingum strax sem við hefðum síðan tekið fyrir í upphafi kjörtímabils og gengið frá þeim breytingum. Það hefði verið mjög í anda þeirrar leiðar sem t.d. er farin í Finnlandi. Þá hlýtur maður að spyrja sig: Hvers vegna var það ekki gert? Hvers vegna var ekki farin sú leið að leggja þetta fram í einu frumvarpi og vísa til þess að samkomulag hefði verið á milli ríkisstjórnarflokkanna um að gera slíkt og þingmeirihluti væri fyrir því?

Staðan sem upp er komin, frú forseti, er að það er greinilega búið að hverfa frá þeirri áætlun sem liggur fyrir í stefnuyfirlýsingunni og nú á að breyta lögum um Stjórnarráðið með allt öðrum hætti og miklu afdrifaríkari en lagt var upp með. Það er þá ekkert skrýtið að einstakir hæstv. ráðherrar í ríkisstjórninni skuli hafa lýst því yfir að þeir telji sig ekki bundna því að styðja slíkt frumvarp. Það segir sig sjálft því að við upphaf þessarar ríkisstjórnar var aldrei gengið frá neinu slíku samkomulagi. Það er alveg greinilegt að ríkisstjórn á fullt í fangi með að mynda meiri hluta á þingi fyrir þessu frumvarpi. Það birtist í því að það eiga sér stað klassísk hrossakaup þar sem keyptir eru til fylgilags við frumvarpið hv. þingmenn úr stjórnarandstöðu og þeir koma m.a. inn ákvæðum um að sett verði upp upptökutæki á fundum hæstv. ríkisstjórnar. Með öðrum orðum, frú forseti, er verið að leggja upp með þetta mál ekkert svo ósvipað og var því miður gert með umsóknina að Evrópusambandinu, þ.e. með klofna ríkisstjórn. Það er ekki einu sinni sátt í stjórnarliðinu um málið. En enn á ný var í stefnuyfirlýsingunni sérstaklega kveðið á um að nauðsynlegt væri að ná góðri samstöðu um þetta mál, sem er auðvitað bráðnauðsynlegt.

Frú forseti. Ég hef gert það áður að umræðuefni að það skipti máli í hvaða röð hlutirnir eru gerðir í þinginu. Eftir því sem ég hugsa meira um þetta mál því sannfærðari verð ég um það að ef við viljum virkilega vanda okkur og gera vel það fyrirkomulag sem við reisum, ef frumvarpið um Stjórnarráðið verður að lögum, sé skynsamlegast að við kláruðum fyrst þá vinnu sem liggur fyrir og almennur vilji hv. þingmanna er að ráðast í sem eru þær breytingar á stjórnarskránni sem við hv. þingmenn höfum talað lengi um í þessum sal að þurfi að gera vegna þess að skipan Stjórnarráðsins hvílir á stjórnarskránni sjálfri.

Ég hef tekið sem dæmi þau vandamál sem koma upp ef við erum búin að skrifa inn í þetta frumvarp og gera að lögum ákveðið fyrirkomulag og síðan verða gerðar breytingar á stjórnarskrá sem kalla á að enn á ný þurfi að gjörbreyta lögum um Stjórnarráðið. Af því að engin knýjandi þörf er á að breyta þessu fyrirkomulagi á að sjálfsögðu á að leggja niður þessa deilu og nýta tíma þingsins til að ráðast í þau verkefni sem þarf að ráðast í og má ná góðri sátt um. Eitt þeirra verkefna er að breyta stjórnarskránni. Ég held að það ætti að vera núverandi hæstv. ríkisstjórn umhugsunarefni, frú forseti, hvernig hefur tekist til að undanförnu í jafnmikilvægum málum þar sem jafnmikilvægt er að náist góð sátt um. Ferill sá sem endaði með skipan stjórnlagaráðs er náttúrlega mjög til umhugsunar um það sleifarlag og þann skort á vandvirkni sem má ekki eiga sér stað þegar við erum að véla um og taka ákvarðanir um grundvöll sjálfs samfélagsins. Ég tel skipta máli að ríkisstjórnin hafi þetta mjög í huga í framtíðinni.

Síðan þegar litið er til einstakra greina í þessu frumvarpi er eðlilegt að hv. þingmenn staðnæmist við kostnaðarhlið málsins. Það er eðlilegt. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það geti vel þurft að styrkja pólitíska stöðu ráðherranna innan ráðuneytanna. Því miður eru dæmi um að hæstv. ráðherrar hafi orðið einhvers konar hluti af eigin ráðuneyti og orðið að embættismönnum allt of hratt og sennilega veitir þeim ekki af góðri pólitískri aðstoð í ráðuneytunum. Þetta er misjafnt eftir ráðherrum. Ég held að menn verði að horfast í augu við það, og hv. þingmenn líka, að nú er ekki tími til að leggja til að fjölga opinberum starfsmönnum jafnmikið og hér er lagt til. Það er það ekki því að fram undan, frú forseti, þarf að taka mjög erfiðar ákvarðanir í þessum sal hvað varðar ríkisreksturinn. Það er engin leið að ná þeim árangri sem við þurfum að ná í ríkisrekstrinum án þess að gripið verði til mjög sársaukafullra aðgerða. Því miður.

Ég held að ekki fari vel á því að um leið og við stöndum frammi fyrir því að skera niður í heilbrigðisþjónustu og í menntamálum og öðrum liðum að fara í þessar breytingar þótt ekki sé um að ræða risaupphæð — þetta er ekki tala sem hleypur á milljörðum en hún er samt há og sýnir forgangsröðun. Það skiptir máli. Fyrir þá sem standa frammi fyrir því að missa mikilvæga þjónustu úr byggðarlagi sínu og jafnvel fyrir þá sem standa frammi fyrir því að missa atvinnu verður það sárt og mun æra sérhvern mann að horfa svo til þess að ráðherrarnir bæti við sig pólitískum aðstoðarmönnum. Þetta hljóta hv. þingmenn að sjá.

Það er þess vegna enn og aftur sem ég spyr: Er ekki skynsamlegt að leggja þetta mál til hliðar úr því að það hafa ekki komið fram nein rök sem sýna knýjandi þörf á að klára það núna? Hvers vegna í ósköpunum ættum við að kalla yfir okkur þessi vandræði?

Ég vil endurtaka, frú forseti, að formaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarni Benediktsson, hefur úr þessum ræðustól boðið ríkisstjórninni að taka þau mál fram fyrir sem hægt er ná góðri samstöðu um og afgreiða. Það er ekki með nokkurri sanngirni hægt að halda því fram að hér sé minni hlutinn að beita bolabrögðum og valta yfir meiri hlutann og koma í veg fyrir það að þingið geti unnið störf sín. Þegar slíkt tilboð liggur fyrir og liggur frammi sjá allir sanngjarnir menn að slíkt er ekki hægt að segja. Ég bíð spenntur eftir því að heyra frá hv. þingmönnum stjórnarliðsins hvaða viðbrögð koma við þessu tilboði. Það hljóta að koma einhver viðbrögð. Það getur varla verið, frú forseti, að slíkt boð sé látið liggja og ekki brugðist við. Ég á bágt með að trúa því.

Að lokum, frú forseti. Ég vil ítreka að það er ýmislegt í þeim breytingum sem nú er verið að ræða sem á rétt á sér. Þetta frumvarp er ekki alvont, en það eru í því þættir sem er augljóst að við hv. þingmenn hljótum að hafa áhyggjur af. Það er ekki hægt að ætlast til þess að slíkt frumvarp fari í gegnum þingið þegjandi og hljóðalaust. Ég verð að segja eins og er að þær umkvartanir sem hafa verið um eitthvert ofbeldi minni hlutans finnst mér holar og ekki trúverðugar af því að á sama tíma og hv. þingmenn, allflestir a.m.k., hafa lýst því yfir að það skipti máli að styrkja stöðu þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu þá er ekki hægt að ætlast til þess með nokkurri sanngirni að menn láti þetta yfir sig ganga og ekki með ríkari rökstuðningi en fram hefur komið í umræðum í þingsal.

Ég tel líka að það sé hætta á því að við þetta ásamt ýmsum öðrum hugmyndum sem hér hafa verið á kreiki um breytingar á fyrirkomulagi þingstarfa gæti menn sín ekki nægjanlega vel á því að ekki er bara um að ræða stöðu þings gagnvart framkvæmdarvaldi heldur líka stöðu minni hluta gagnvart meiri hluta í þinginu, sem ég held reyndar að sé lykilatriðið. Það er lykilatriði að tryggja það að minni hlutinn hafi nægilega sterka stöðu gagnvart meiri hlutanum þannig að meiri hlutinn geti ekki gengið yfir minni hlutann. Enn og aftur, frú forseti, það sem skiptir máli og er einn af grundvallarþáttum lýðræðisins er að við getum náð saman um meginþætti stjórnskipunarinnar og stjórnsýslunnar. Ef það er ósátt um þessa þætti sjá menn það í hendi sér og það kallar á ósætti í samfélaginu.

Það er þess vegna, frú forseti, sem ég vænti þess að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar hafi einmitt verið kveðið á um að það næðist samstaða um þessar breytingar og haft væri það sem kallað er víðtækt samráð um breytingar á stjórnkerfinu. Ég tel að þau orð eigi ágætlega við enn þá. Ég vænti þess og vona að hv. þingmönnum stjórnarliðsins þyki svo hið sama.