139. löggjafarþing — 164. fundur,  16. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[01:43]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er augljóst að ekki er sátt um þetta mikilvæga mál, það má vera ljóst. Það er alveg sama hvernig hv. þingmaður snýr sér í því þá liggur það fyrir og hefur komið fram í máli margra hv. þingmanna. Það er einmitt þess vegna sem enn og aftur er spurt: Hvað liggur á? Nú er klukkan að nálgast tvö að nóttu og ég kvarta ekkert yfir því að hér séu næturfundir. En það er augljóst að það liggur á, það er alveg augljóst, en það vantar bara rökin fyrir því.

Ég hef ekki enn fengið neitt svar við þeirri fyrirspurn minni hvað það er sem knýr þetta mál áfram annað en það að svo virðist vera sem hæstv. forsætisráðherra hafi siglt í strand með þær fyrirætlanir sem birtast í samstarfsyfirlýsingunni, hafi ekki haldið meiri hluta í því máli og ætli að fara þessa leiðina. Það gerir það að verkum að margir hv. þingmenn hafa af því áhyggjur hvernig til málsins er stofnað og lesa þá um leið úr því, tilurð málsins, hvernig farið verði með það vald, hvernig því verði beitt, sem forsætisráðherrann fær gangi þetta frumvarp eftir og verði að lögum.