139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 35/2010 um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn.

629. mál
[14:48]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 35/2010, um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn um neytendavernd.

Með þessari tillögu er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, frá 12. mars 2010, um breytingu á XIX. viðauka um neytendavernd við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/22/EB um að setja lögbann til verndar hagsmunum neytenda.

Framsetning þessarar tillögu telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála frá 1. október 2010.

Með þessari tilskipun er endurútgefin tilskipun 98/27/EB sem hefur verið breytt nokkrum sinnum. Þetta er gert til hagræðingar. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að í reynd væri einnig verið að víkka út gildissviðið. Markmið tilskipunarinnar er eftir sem áður að koma í veg fyrir ólögmætar athafnir sem hafa áhrif á hagsmuni neytenda þegar viðskipti eru stunduð yfir landamæri.

Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og mun fyrirhugað frumvarp innanríkisráðherra um breytingu á lögum um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda, nr. 141/2001, með síðari breytingum, fjalla um það efni.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt. Undir nefndarálitið rita Árni Þór Sigurðsson, Valgerður Bjarnadóttir, Birgitta Jónsdóttir, Bjarni Benediktsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Helgi Hjörvar, Ólöf Nordal og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.