139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

vestnorrænt samstarf til að bæta aðstæður einstæðra foreldra á Vestur-Norðurlöndum.

477. mál
[14:54]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Hér liggur fyrir tillaga til þingsályktunar um vestnorrænt samstarf til að bæta aðstæður einstæðra foreldra á Vestur- Norðurlöndum sem Íslandsdeild þingmannanefndar Vestnorræna ráðsins flytur.

Utanríkismálanefnd hefur fjallað um þessa tillögu, en með henni er lagt til að Alþingi skori á ríkisstjórnina að hafa frumkvæði að samstarfi við Færeyjar og Grænland um að stuðla að umbótum á aðstæðum einstæðra foreldra á Vestur-Norðurlöndum. Lagt er til að samstarf við Færeyjar og Grænland verði aukið, m.a. með því að ríkin skiptist á hugmyndum, þekkingu og reynslu. Markmiðið verði að leggja fram sameiginlegar tillögur um það hvernig best væri að bæta aðstæður fjölskyldna einstæðra foreldra. Sem fyrsta skref í þessa veru er skorað á velferðarráðherra að skipuleggja ráðstefnu, í samvinnu við velferðarráðherra Færeyja og Grænlands, þar sem skipst verði á hugmyndum og árangursríkar aðgerðir kynntar.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt. Undir nefndarálitið rita Árni Þór Sigurðsson, Valgerður Bjarnadóttir, Birgitta Jónsdóttir, Bjarni Benediktsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Helgi Hjörvar, Ólöf Nordal og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.