139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

samvinna milli ríkissjónvarpsstöðva vestnorrænu ríkjanna.

481. mál
[15:05]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem hér upp sem fyrrverandi formaður Vestnorræna ráðsins og formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins þaðan sem þessi tillaga er upphaflega sprottin. Ég er þakklát því nefndaráliti sem meiri hluti hv. utanríkismálanefndar hefur látið frá sér fara um þetta mál, sem og önnur þau sem eru til umræðu hér og eru komin frá Vestnorræna ráðinu þar sem álit nefndarinnar er að samþykkja þau erindi óbreytt nánast með einni undantekningu.

Varðandi þá athugasemd að það sé ekki hlutverk hins opinbera að segja fyrir um dagskrárgerð sjónvarpsstöðva þá er það að sjálfsögðu alveg rétt, enda er það ekki lagt til í tillögu Vestnorræna ráðsins. Hér er um ræða viljayfirlýsingu um menningarlegt samstarf sem er auðvitað mjög æskilegur hlutur og í fullu samræmi við þá stefnumótun sem Alþingi Íslendinga hefur tekið í málefnum Norðurlandasamstarfs og ekki síst varðandi vestnorræna samstarfið. Það er aftur á móti sjónvarpsstöðvunum sjálfum í fullt sjálfsvald sett hvernig þær útfæra nánar þetta samstarf eins og skilja má greinilega af texta tillagnanna sem hér eru til umræðu.