139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.

723. mál
[17:20]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra um að við getum verið sammála, ég sagði það í ræðu minni áðan að við getum verið sammála um það að þörfin er vissulega til staðar um að taka þessi mál fyrir og ræða þau á breiðum grundvelli og þröngum grundvelli.

Það sem ég geri athugasemd við er að það sé verið að fjalla um þau mál sem hæstv. ráðherra nefndi. Við getum örugglega náð breiðri samstöðu um hvernig bregðast skuli við náttúruhamförum, farsóttum og öllu því sem ég taldi hér upp áðan. Þetta eru verkefni sem eru bara óvart ekki á sviði hæstv. ráðherra og það er það sem ég er að gera athugasemd við.

Svo finnst mér þetta líka dálítið, ef ég má nota orðið, barnalegt. Hæstv. ráðherra talar um að við eigum að tala okkur niður á að ná samstöðu um viðhorf okkar í varnar- og öryggismálum. Þá spyr ég: Heldur hæstv. ráðherra að það sé einhver von til þess að til dæmis Vinstri hreyfingin – grænt framboð breyti skoðun sinni gagnvart veru okkar í Atlantshafsbandalaginu? Ég er þeirrar skoðunar að þeir muni ekki gera það og þá tel ég voðalega litlar líkur á því að ég og flestir í mínum flokki og allmargir í flokki hæstv. utanríkisráðherra getum náð samstöðu um það hver stefna okkar í þeim málum eigi að vera sameiginleg, jafnvel þótt Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafi ekki sett sig upp á móti ýmsum hlutum sem við þekkjum og ákvörðunum sem hafa verið teknar á vettvangi bandalagsins en það er önnur umræða. En þetta er líka svo mikið byggt á skýrslu áhættumatsnefndar sem skilaði niðurstöðum sínum fyrir tveimur árum og komst að því að það væri ekki svo mikil ógn sem steðjaði að Íslandi svona almennt. Sem betur fer er það rétt. En ég gagnrýndi á þeim tíma niðurstöðu þess hóps sem dálítið „naívar“ (Forseti hringir.) og að gera sér ekki grein fyrir því að það er ekki bara hægt að gera áætlanir á grundvelli þess að allir í heiminum séu góðir og öll dýrin í skóginum eigi að vera vinir, (Forseti hringir.) heldur verðum við líka að gera ráð fyrir því að við þurfum að taka til almennilegra varna ef eitthvað kemur upp á.