139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

fæðingar- og foreldraorlof.

748. mál
[17:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hluta félags- og tryggingamálanefndar vegna breytinga á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum.

Nefndin fékk á sinn fund fjölda gesta og umsagnaraðila sem getið er í nefndaráliti. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Breytingarnar eru þrenns konar. Í fyrsta lagi er um að ræða breytingar sem eru til komnar vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og varðar það sérstaklega lengd foreldraorlofsins. Í öðru lagi eru breytingar sem miða að því að skýra frekar þá reiknireglu sem Fæðingarorlofssjóður hefur viðhaft við framkvæmd laganna. Í þriðja lagi eru svo lagðar til ýmsar breytingar á lögunum, meðal annars í því skyni að skýra betur tiltekin ákvæði sem þótt hafa óskýr við framkvæmd laganna og tryggja betur rétt fólks.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með örlitlum breytingum. Þær eru tæknilegs eðlis og það er aðallega fyrsta breytingin sem varðar það að víða í lögunum er talað um að barn hafi náð 18 mánaða aldri, en eins og alþingismenn vita var rétturinn til töku fæðingarorlofs lengdur úr 18 mánuðum í 36 mánuði og við erum með nokkrar aðlaganir að því .

Þá teljum við mjög eðlilegt að leiða athugasemdir ESA í lög enda fela þær í sér rýmkaðan rétt foreldra til töku foreldraorlofs sem er heimild til launalauss leyfis í allt að 14 vikur til að vera með barni sínu.

Undir nefndarálit þetta rita Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Guðmundur Steingrímsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir.