139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

starfsmannaleigur.

729. mál
[18:36]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar. Nefndin fékk á sinn fund fulltrúa frá velferðarráðuneyti og einnig bárust henni umsagnir frá nokkrum aðilum eins og getið er í nefndaráliti.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um starfsmannaleigur í kjölfar athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA þess efnis að tiltekin ákvæði laganna brjóti hugsanlega í bága við 36. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið þar sem kveðið er á um frjáls þjónustuviðskipti. Stofnunin gerir meðal annars athugasemdir við að einstök ákvæði laganna jafngildi kröfu um að erlendar starfsmannaleigur þurfi að sækja um leyfi fyrir fram til að geta hafið starfsemi hér á landi. Þá telur stofnunin unnt að ná þeim markmiðum laganna þó að umræddum ákvæðum sé breytt þannig að efni þeirra falli betur að ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru að öllu leyti sambærilegar breytingum sem gerðar voru með lögum nr. 96/2010 á lögum nr. 45/2007, um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra. Enginn umsagnaraðila gerir athugasemd við fyrirliggjandi frumvarp sem er samið í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Ásmundur Einar Daðason var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Undir nefndarálitið rita Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Pétur H. Blöndal, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir.