139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

19. mál
[19:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég er á móti þessari tillögu vegna þess að hér vex þrýstingur á stjórnir lífeyrissjóðanna að fjárfesta í húsnæði sem jafnvel sjóðfélagarnir eiga og þá lenda þeir í þeim hagsmunaárekstri, ef þeir ætla sér að ná arðsemi út úr eigninni með því að hafa sæmilega leigu, að þá er það sjóðfélaginn sem greiðir það og hagsmunir hans verða öndverðir. Þetta mun valda því að það verður mikill þrýstingur á stjórnir sjóðanna að kaupa fasteignir til að leigja sjóðfélögum.

Nú segja sumir að það sé allt í lagi að menn geti fengið lífeyrinn á þennan hátt en það verður alltaf mismunun vegna þess að það geta ekki allir sjóðfélagar búið í húsnæði sem lífeyrissjóðirnir eiga og þá lenda menn í því, ef þeir hlýða þeim sjóðfélaga sem býr í húsnæðinu og vill fá lága leigu, að þeir ganga á hagsmuni hinna sjóðfélaganna. Það væri miklu betra að hafa þetta á formi hlutafélags því að þá er meiri fjarlægð frá stjórn lífeyrissjóðsins yfir til þess sem leigir. Ég óttast að þetta muni bara valda því að hagsmunir sjóðfélaga sem lífeyrisþega seinna meir verði fyrir borð bornir.