139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

menntun og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

895. mál
[19:25]
Horfa

Frsm. menntmn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti menntamálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 87/2008, með síðari breytingum.

Eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu var við samþykkt umræddra laga ákveðið að þeim sem byrjað hefðu kennaranám fyrir gildistöku laganna yrði veittur frestur til 1. júlí 2011 til að fá leyfisbréf til kennslu að loknu bakkalárprófi og tilskildu námi í uppeldis- og kennslufræðum. Mennta- og menningarmálaráðuneytinu höfðu borist talsvert margar fyrirspurnir frá aðilum sem ekki höfðu getað lokið námi sínu til kennsluréttinda innan þessara tímamarka og var lagt til í frumvarpi menntamálanefndar að þau yrðu færð til 1. janúar 2012. Við meðferð málsins skoðaði nefndin sérstaklega hvort þessi frestur væri nægjanlega langur og var það niðurstaða nefndarinnar að svo væri ekki. Leggur nefndin til breytingu á frumvarpsgreininni í þá veru að þessi frestur verði lengdur til 1. júlí 2012 til að gefa svigrúm þeim nemendum sem ekki eru nú þegar skráðir til náms í umræddu námi og þykir nefndinni það vera sanngirnismál þar sem skráningarfrestur til að sækja nám er liðinn á haustmissiri.

Rétt er að árétta það að hér er verið að koma til móts við tvo hópa, annars vegar þann hóp sem lauk sínu námi fyrir tilskilinn frest en veittist ekki ráðrúm til að sækja um leyfisbréf fyrir 1. júlí sl. Það munu vera um það bil 90 manns sem svo er ástatt um. Hins vegar eru þeir aðilar sem eiga eftir tiltölulega lítinn hluta í náminu og fá þá frest til 1. júlí 2012 til að ljúka sínu námi.

Nefndin telur hins vegar mikilvægt að um leið og veittur er lengri frestur sé nauðsynlegt að afmarka eins og unnt er þann hóp sem þarf að nýta sér þann möguleika sem fresturinn gefur til að ljúka sínu námi svo að það sé engum vafa undirorpið hverjir eigi í hlut. Því leggur nefndin til þá breytingu að miðað verði við þá sem áttu við lok vormissiris 2011 30 eða færri einingum ólokið til prófs sem svarar til þess að vera fullt nám á einu missiri. Nefndin vill árétta það að ekki verður um frekari framlengingu á fresti að ræða til að sækja um útgáfu leyfisbréfs.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingu sem kemur fram á meðfylgjandi þingskjali.

Undir nefndarálitið rita allir fulltrúar í hv. menntamálanefnd þingsins. Ég þakka gott samstarf nefndarmanna um þetta mál.