139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

741. mál
[19:29]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta sjútv.- og landbn. (Björn Valur Gíslason) (Vg):

Frú forseti. Ég flyt hér nefndarálit frá 1. minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

Nefndin hefur fjallað allítarlega um málið og fengið til sín fjölda gesta eins og kemur fram á nefndarálitinu.

Með frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að felldur verði á brott II. kafli gildandi laga um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins sem fjallar um greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins. Í öðru lagi að í stað hins brottfellda kafla komi nýr kafli sem hafi að geyma ákvæði þar sem framleiðendum sjávarafurða, öðrum fiskkaupendum og þeim sem taka sjávarafurðir í umboðssölu verði gert skylt að greiða hlutfall af samanlögðu verðmæti afla smábáta inn á reikning hagsmunasamtaka útvegsmanna að beiðni útvegsmanns eða hagsmunasamtaka útvegsmanna, samkvæmt skrá. Í þriðja lagi er lagt til að heiti laga um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins verði breytt í lög um skiptaverðmæti, þ.e. að sá hluti heitisins sem varðar greiðslumiðlun falli brott.

Það er mat 1. minni hluta að ákvæði 2. gr. frumvarpsins feli ekki í sér að farið sé gegn frelsi útgerðarmanna smábáta til að velja sér þann félagsskap sem samræmist skoðunum þeirra. Þá virðast þvingandi áhrif þess vera takmörkuð þar sem einstakir smábátaeigendur hafa val um það hvort þeir greiða til hagsmunafélags eða ekki. Ætlunin er að þeir sem kjósa að greiða gjald samkvæmt ákvæðinu greiði það til einkaréttarfélaga. Á móti kemur þó að greiðendur fá að ákveða til hvaða félags greiðslur þeirra berast. Þá virðist komið í veg fyrir að gjaldheimta verði eins kerfisbundin og framhaldandi og í máli Varðar Ólafssonar með því að útgerðarmanni er heimilað að hætta að greiða gjaldið að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Eins og fram hefur komið byggist hagræðið af 2. gr. á þeim rökum að ákvæðið ýti undir tryggar heimtur á framlagi til Landssambands smábátaeigenda vegna þess mikla starfs sem sambandið hefur unnið á síðustu árum, auk þess sem gert er ráð fyrir að greinin gildi um önnur sambærileg félög útvegsmanna.

Eins og fram hefur komið var bent á að innheimtuhagræði 2. gr. frumvarpsins hefði íþyngjandi áhrif á ákveðinn hóp. 1. minni hluti telur verulegar líkur á að téð hagræði muni hafa í för með sér að aðilum í sömu stöðu verði tryggð mismunandi réttindi. Landssamband línubáta virðist telja eðlilegt að það njóti hagræðis frumvarpsins. Afstaða Samtaka íslenskra sjómanna liggur ekki fyrir og önnur félög útgerðarmanna telja að með sömu rökum ættu þau einnig að njóta sama hagræðis og hagsmunasamtök smábátaeigenda. Þrátt fyrir að ekki verði dregið í efa að Landssamband smábátaeigenda hafi gegnt mikilvægu hlutverki, bæði fyrir félagsmenn sína og aðra, og muni eflaust gera það áfram, verður ekki hjá því litið að hlutverk þess hefur ekki þau nánu tengsl við almannahagsmuni sem 1. minni hluti telur nauðsynleg til að réttlæta að ákveðnum hópi aðila verði fengið lögákveðið hagræði umfram aðra. Má í því sambandi meðal annars benda á að Landssamband smábátaeigenda virðist ekki hafa lokið gerð kjarasamninga við sjómenn sína. Þá telur 1. minni hluti sig ekki geta litið fram hjá ábendingum sem komu fram á fundi nefndarinnar þess efnis að félaginu væri frjálst að ganga til samninga við fiskkaupendur um að koma á því innheimtuhagræði sem 2. gr. frumvarpsins kveður á um. Af þeim sökum leggur 1. minni hluti til að 2. gr. frumvarpsins verði felld brott en bendir um leið á að sá tími sem líða mun fram að gildistöku frumvarpsins ætti að nýtast til að leita leiða til að tryggja rekstrargrundvöll Landssambands smábátaeigenda.

Í ljósi framangreinds leggur 1. minni hluti til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

„2. gr. falli brott.“

Undir þetta nefndarálit ritar hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður nefndarinnar. Hv. þingmenn Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Helgi Hjörvar og Björn Valur Gíslason rita sömuleiðis undir þetta álit.

Fjarverandi við afgreiðslu málsins í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd voru hv. þingmenn Sigurður Ingi Jóhannsson, Einar K. Guðfinnsson og Róbert Marshall.