139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:03]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara náið út í efnisatriði málsins sem nú kemur til atkvæða, það hefur verið gert í allmörgum ræðum.

Ég vildi geta þess að nú stefnir auðvitað í að frumvarpið taki verulegum breytingum milli 2. og 3. umr. Það gerir að verkum að við þingmenn Sjálfstæðisflokksins munum sitja hjá við allmörg ákvæði frumvarpsins, bæði þau sem eiga eftir að breytast og önnur sem þeim tengjast. Við munum hins vegar láta í ljósi andstöðu okkar við ákveðnar breytingartillögur sem hér koma til atkvæða og undirstrikum að þrátt fyrir að við teljum að vonir séu um að málið batni þegar það kemur til 3. umr., leggjumst við gegn frumvarpinu sem slíku.