139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:44]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Þetta er tilraun til að opna stjórnsýsluna og gera hana gagnsærri. Málsgreinin hljóðar svo:

„Ráðuneytisstjórum er skylt að mótmæla eða koma að athugasemdum telji þeir gjörðir ráðherra ekki samræmast lögum eða vönduðum stjórnsýsluháttum. Samsvarandi skylda hvílir einnig á skrifstofustjórum óháð afstöðu ráðuneytisstjóra. Mótmæli og athugasemdir af þessum toga ber að tilkynna til umboðsmanns Alþingis.“

Við höfum legíó af tilfellum þar sem háttsettir menn í stjórnsýslunni hafa látið af störfum og aldrei hefur verið upplýst af hverju. Nýjasta dæmið er brottför forstjóra Bankasýslu ríkisins. Við höfum dæmi um fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu sem lét af störfum við mjög einkennilegar aðstæður, við höfum fyrrverandi formann einkavæðingarnefndar sem lét af störfum vegna mjög sérstakra aðstæðna. Í stjórnsýslunni er legíó af svona dæmum. Stjórnsýslan er til fyrir almenning í landinu en ekki fyrir ráðuneytisstjóra eða fyrir ráðherra og almenningur á skilyrðislaust að fá upplýsingar um þau deilumál sem eru til staðar í stjórnsýslunni. Þetta er tilraun til að opna á það en því miður er ekki áhugi á því, (Forseti hringir.) ég er viss um það.