139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja.

18. mál
[21:20]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um að vísa frumvarpi um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnavopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja, til ríkisstjórnarinnar. Þetta er mál sem hefur verið flutt á Alþingi nánast undanfarin tíu ár, hygg ég megi segja, og ekki fengið framgang fyrr en nú.

Utanríkismálanefnd og meiri hluti hennar, fulltrúar fjögurra stjórnmálaflokka af fimm á Alþingi, leggja til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og unnið verði að markmiðum frumvarpsins, meðal annars í vinnu um mótun þjóðaröryggisstefnu sem fyrirhugað er að fari af stað og kemur fyrir sem næsta mál.

Ég fagna því að þessu mikilvæga baráttumáli er þokað áfram og segi því já.