139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

húsnæðismál.

100. mál
[21:33]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Brestur er kominn í brynju verðtryggingar. Í tillögum verðtryggingarnefndar lögðum við til að Íbúðalánasjóður mundi fá nákvæmlega þessa heimild og ég fagna því sem formaður nefndarinnar. En lykillinn að því að ná að afnema verðtrygginguna er bætt efnahagsstjórnun. Mitt mat er að afnám verðtryggingar sé hluti af því að bæta stjórn efnahagsmála á Íslandi.

Það skiptir líka mjög miklu máli að ríkissjóður axli sína ábyrgð og gefi út bæði óverðtryggð og verðtryggð skuldabréf þannig að við fáum ákveðin vaxtaviðmið sem aðrir geta miðað við, þar á meðal Íbúðalánasjóður. En við þurfum líka öll að taka höndum saman og tryggja það að við lækkum vexti á Íslandi. Eins og kom fram í fréttum í gær hafa menn reiknað sig fram til þeirrar niðurstöðu að varla sé til óarðbærari fjárfesting en að fjárfesta í eigin húsnæði. Það segir okkur heilmikið um hvers konar vaxtakjör er verið að bjóða upp á á Íslandi. (Forseti hringir.) Tökum höndum saman um að tryggja að fólk geti eignast raunverulegan valkost (Forseti hringir.) hvað varðar húsnæði, húsnæði sem það ræður við að búa í.