139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

19. mál
[22:02]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um aðra breytinguna í kvöld á lagaumhverfi lífeyrissjóðanna. Ég vil leggja áherslu á það við þingheim að við tökum nú höndum saman og förum í heildarendurskoðun á lagaumhverfi lífeyrissjóðanna. Fram hafa komið margvíslegar ábendingar um það sem mætti betur fara, líka áhyggjur af því hvort lífeyrissjóðakerfið okkar sé í raun og veru sjálfbært út frá þeim lagaramma og samþykktum sem sjóðirnir starfa eftir núna. Þegar hefur verið ályktað að það þurfi að skoða þá. Þeir hafa sjálfir verið í naflaskoðun og við höfum verið að bíða eftir þeirri niðurstöðu. Það er mín afstaða að mjög brýnt sé að fram fari heildarendurskoðun á starfsumhverfi og lagaumhverfi lífeyrissjóðanna. Hins vegar fagna ég að þessi breyting sé að fara í gegn og styð hana heilshugar. Ég hvet þingmenn eindregið (Forseti hringir.) til að íhuga að fara í heildarendurskoðun á lífeyrissjóðunum.

(Forseti (RR): Forseti biður um ró í salinn.)