139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[22:06]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Eins og ég rakti í umræðu um málið fyrr í dag hefur orðið samkomulag um afgreiðslu þingsins á því og það mun nú ganga til nefndar. Þar mun verða lagt til að tímalengd haftanna verði stytt frá því sem gert var ráð fyrir í upphaflegu frumvarpi og miðað við árslok 2013. Að öðru leyti vísa ég til þeirra fjölmörgu atriða sem ég rakti í máli mínu í dag og lúta að því að skapa skýrari sýn á hvernig afnám haftanna getur orðið eins fljótt og mögulegt er þannig að við sendum þau skilaboð að við viljum afnema þau eins fljótt og kostur er.

Ég vil sérstaklega þakka gott samstarf um lúkningu þessa máls við formenn stjórnarandstöðuflokkanna, hv. þingmenn Bjarna Benediktsson, Sigmund Davíð Gunnlaugsson og Birgittu Jónsdóttur, og við nefndarmenn í efnahags- og skattanefnd, sérstaklega formann nefndarinnar Helga Hjörvar og Tryggva Þór Herbertsson.