139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[22:08]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra lagði fram þingmál um að festa í sessi gjaldeyrishöft til margra ára, frumvarp sem var með þvílíkum ólíkindum og kvað á um eftirlit með borgaranum, skilaskyldu á gjaldeyri og rannsókn á fjárhagslegri stöðu þeirra sem ætluðu sér að taka út gjaldeyri. Nú er búið að gera heilmiklar breytingar á málinu í meðförum efnahags- og skattanefndar. Það er ekki nóg. Við framsóknarmenn erum algjörlega andvígir því að festa í sessi gjaldeyrishöft til margra ára. Þessi haftastefna Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs mun því miður skaða íslensk heimili, íslenskt atvinnulíf, til langframa. Þess vegna verður að breyta um ríkisstjórn í landinu. Með þessari löggjöf er verið að festa höftin enn frekar í sessi. Við framsóknarmenn munum ekki styðja það.