139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[22:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Birni Vali Gíslasyni fyrir ágæta ræðu. Ég ætla að tala um peninga, hér er verið að skerpa á ýmsum ákvæðum um fjármál sveitarfélaga en svo virðist sem borgararnir komi hvergi að því með til dæmis kosningu. Þegar menn fara í stórar fjárfestingar samkvæmt. 66. gr. þætti mér ekkert óeðlilegt að borgararnir yrðu spurðir hvort það væri eðlilegt að fara í þessa fjárfestingu. Eins þegar heildarskuldir eru komnar yfir 150%, þ.e. komnar yfir hættumörk, ættu borgararnir að fá að kjósa um það hvort þeir vildu ekki fá nýja sveitarstjórn til að ganga frá því máli því að hin hafi greinilega keyrt of glannalega.

Er eðlilegt að það sé heimilt að veðsetja tekjur ríkissjóðs gagnvart Lánasjóði sveitarfélaga? Það hefur nefnilega líka verið opinn kanall til að ná í pening. Einu sinni hefur verið hótað að beita því ákvæði að ganga að tekjum sveitarfélagsins, þ.e. skatttekjum, en þá var því kippt í liðinn.

Ætti ekki að afnema alveg heimildir til að ganga í ábyrgðir? Stofnanir sveitarfélagsins, þ.e. fyrirtæki, eiga bara að fá fjárveitingar til þess að gangast í ábyrgðir.

Svo vildi ég spyrja um þessa nýjustu tísku um einkarekstur og hvort það sé alveg klárt, ég hef heyrt það, að eftirlitsnefndin sé farin að meta hvort það sé skuldbinding fyrir sveitarfélagið eða ekki að byggja til dæmis sundlaug sem dettur af himnum ofan og enginn virðist borga.