139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[22:57]
Horfa

Frsm. samgn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir andsvarið. Í fyrsta lagi spyr hv. þingmaður um rétt borgaranna, ef ég skildi hann rétt, til að vera spurðir álits á stærri framkvæmdum sem sveitarfélagið væri að fara í. Sá réttur er ótvíræður í frumvarpinu. Um hann má lesa í greinum númer rúmlega 100, líklega 105, 106, 107, 108, þegar fjallað er um þann rétt borgara að óska eftir því að fá að segja álit sitt á tilteknum þáttum, t.d. framkvæmdum eða ákvörðunum sem þykja meiri háttar. Þá ber sveitarfélögunum að sjá til þess að sú kosning fari fram samkvæmt reglum þar um og ákveða áður en gengið verður til kosninga hvort það verður þá bindandi kosning eða leiðbeinandi eða hvernig menn fara með það.

Einn hluti frumvarpsins sem ég hafði ekki tíma til að nefna áðan er að það er verið að opna miklu frekar á aðkomu íbúa en áður var og setja skýrari reglur en eru í dag. Ég held að það sé enn einn athyglisverði flöturinn á þessu frumvarpi.

Hið sama er um skuldir, það er ekki beinlínis gert ráð fyrir því í frumvarpinu að íbúar geti kosið um það ef sveitarfélag fer umfram skuldaþak, það er hreinlega lögbrot samkvæmt þessu, það verður ekki leyft verði frumvarpið að lögum. Ég get ekki séð að það sé flötur á því að bjóða íbúum að kjósa beinlínis um lögbrot, það verður bara tekið á því samkvæmt ákvæðum frumvarpsins.

Hv. þingmaður spyr um heimild til að gangast í ábyrgðir. Ef ég man rétt var sú heimild afnumin í sveitarstjórnarlögum í kringum 2000 eftir mikla þrautagöngu, ég þekki sem gamall sveitarstjórnarmaður að okkur var ákaflega erfitt að vera með þetta á bakinu. Það var öðrum hvorum megin við 2000 sem sú heimild datt út úr sveitarstjórnarlögum, sem betur fer.