139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[23:36]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til sveitarstjórnarlaga ásamt nefndaráliti sem allir hv. þingmenn samgöngunefndar skrifa undir. Reyndar er ég á því með fyrirvara.

Ég vil byrja á að þakka fyrir það góða og mikla samstarf sem varð í hv. samgöngunefnd undir öruggri forustu formanns nefndarinnar, hv. þm. Björns Vals Gíslasonar. Ég er þeirrar skoðunar, og vil að það komi skýrt fram, að ef ekki hefði verið það verklag sem var notað í nefndinni við vinnslu frumvarpsins og þeirra breytingartillagna sem liggja fyrir hefðum við ekki komist í gegnum það að klára frumvarpið á þessu þingi. Það hefði verið mjög bagalegt vegna þess að kallað er eftir þessu af hálfu sveitarfélaganna. Það er rétt, sem hv. þm. Lúðvík Geirsson nefndi í lok ræðu sinnar, að í dálítinn tíma hefur verið ákveðin þróun í sveitarfélögunum, hvernig þau starfa, og verið er að færa það nær þeim ramma í því frumvarpi sem hér er.

Náið og gott samstarf var enda haft við sveitarfélögin í landinu, bæði þegar frumvarpið var samið og eins þegar það kom til hv. samgöngunefndar. Þar var unnið með þeim aðilum sem eru í forsvari fyrir íslensku sveitarfélögin, sjónarmið þeirra komust á framfæri og tekið var tillit til þeirra.

Ég vil líka taka undir það sem hv. þm. Björn Valur Gíslason sagði þegar hann mælti fyrir nefndarálitinu. Það var mjög athyglisvert og eftirtektarvert hvernig starfsmenn ráðuneytisins komu að málinu, Hermann Sæmundsson og Stefanía Traustadóttir. Þau lögðu mikla vinnu í að ná þeirri sátt sem hér liggur fyrir og unnu náið með forsvarsmönnum sveitarfélaganna og mörgum öðrum aðilum, endurskoðendum, borgarlögmanni, fjármálastjóra Reykjavíkurborgar o.fl., sem varð til þess að búið er að gera töluverðar breytingar. Ég ætla líka að vekja athygli á umfjöllun nefndarinnar, en nefndarálitið er um 30 bls, en það er ekki mjög algengt. Farið er efnislega yfir allar athugasemdir sem er mjög gott fyrir þá hv. þingmenn sem ekki eiga sæti í samgöngunefnd. Í þessu eru ómetanlegar upplýsingar og bæði rétt og skylt að þakka nefndarritara samgöngunefndar, Benedikt S. Benediktssyni, fyrir hans þátt í því að við erum komin á þann stað að geta klárað þetta mál.

Ég lít á það skref sem við stígum hér sem áframhald af breytingum sem við gerðum á síðasta ári þegar kveðið var á um að allar skuldbindingar sveitarfélaganna þyrftu að koma fram í ársreikningi, leigusamningar o.fl. Menn höfðu tekið ákveðna hluti út fyrir efnahagsreikninginn, þ.e. búið til fasteignafélög, selt fasteignir sveitarfélaganna, skóla, sundlaugar og guð má vita hvað. Þar með gátu menn sett þá til hliðar út fyrir efnahagsreikning sveitarfélaganna og það var mjög bagalegt, við höfum slæma reynslu af því. Þær breytingar sem voru gerðar á sveitarstjórnarlögunum í fyrra gengu út á að skýrt væri kveðið á um að allar skuldbindingar kæmu fram og eins að skila yrði ársfjórðungslega til eftirlitsnefndar sveitarfélaganna til að hægt væri að fylgja hlutunum eftir og fylgjast með fjármálum sveitarfélaganna. Það er gríðarlega mikilvægt að það sé gert á þann veg sem þar er.

Ég ætla að fara örstutt yfir einstakar greinar frumvarpsins. Ég sé ekki ástæðu til að fara yfir þær greinar sem búið er að fara yfir. Hv. þm. Björn Valur Gíslason mælti fyrir nefndarálitinu og fór mjög ítarlega yfir ákveðna hluti. Hv. þm. Lúðvík Geirsson fór yfir það sem snýr að íbúakosningunum og hvað menn þurfa að skoða betur og ræða þar. Ég sé ekki ástæðu til að fara efnislega yfir það.

Ég tek undir það með hv. þm. Lúðvík Geirssyni, sem talaði á undan mér, að sú breytingartillaga sem hv. þingmenn Sigmundur Ernir Rúnarsson og Mörður Árnason flytja um lágmarksíbúafjölda, þ.e. að í hverju sveitarfélagi eigi að lágmarki að vera 1.500 íbúar — ég er mótfallinn þeirri aðferðafræði, mér finnst það ekki vera rétta aðferðin. Þetta er hlutur sem við þurfum að þróa áfram í samvinnu sveitarfélaganna en ekki að kveða á um einhvern lágmarksíbúafjölda, við getum allt eins miðað við stærð í ferkílómetrum eða hvað sem er. Þetta er þróun sem íbúar sveitarfélaganna verða að sjálfsögðu að ráða sjálfir.

Ég vil líka benda á að í flestum tilfellum ef ekki öllum eru smæstu sveitarfélögin í góðri fjárhagslegri stöðu sem er þá kannski líka ástæðan fyrir því að þau vilja ekki sameinast, þau hafa kannski miklar tekjur. Þessa hluti þarf að þróa frekar á sveitarstjórnarstiginu því að við vitum að einstaka sveitarfélög sem hafa gríðarlega miklar tekjur eru hugsanlega að fá greitt út úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og það er hlutur sem sveitarstjórnarmenn verða að ræða sín á milli og koma sér niður á. Við eigum ekki að fara í sameiningar af þessu tagi, hvorki með því að kveða á um lágmarksíbúafjölda eða þá að stjórnvöld á hverjum tíma bjóði gulrætur til að reyna að lokka sveitarfélögin í sameiningar.

Það sveitarfélag sem ég bý í, þar sem ég hef starfað sem sveitarstjórnarmaður, Snæfellsbær, var fyrsta sveitarfélagið sem sameinaðist í átakinu 1994, í fyrstu umferðinni. Þá voru gefin ákveðin loforð af hálfu stjórnvalda sem því miður var ekki staðið við að fullu leyti, sem var svokallað skuldajöfnunarframlag. Síðast en ekki síst var sagt að til að hægt væri að sameina sveitarfélögin yrði að klára veginn um Fróðárheiði og hann er ókláraður enn. Við sjáum alveg hvað þetta þýðir.

Virðulegi forseti. Þegar verið var að ræða um sameiningu á öllu Snæfellsnesi var það mjög ríkt í íbúum í mínu sveitarfélagi að ekki þýddi að tala um frekari sameiningar fyrr en búið væri að standa við gefin loforð, loforð sem ekki hefðu verið efnd í vel á annan áratug. Ég tel það því ekki vera réttu leiðina að gera þetta með þessum hætti.

Ég vil hins vegar lýsa því yfir í þessum stól, og hef gert það á fundum hv. samgöngunefndar, að ég styð tillögu hv. þm. Marðar Árnasonar um það að ekki komi lögboð að ofan um að fjölga borgarfulltrúum í Reykjavík. Það er svigrúm til þess í dag. Samkvæmt þeim lögum sem eru í gildi getur borgarstjórn Reykjavíkur tekið ákvörðun um 27 aðalmenn en tillaga hv. þingmanns gengur út það að sameina tvo málsliði í 11. gr. laganna þar sem miðað er við að íbúar séu 50 þúsund eða fleiri, þar yrði þá miðað við töluna 15–31 og það yrði þá val borgarstjórnar á hverjum tíma. Ég mun styðja þá breytingartillögu sem hv. þm. Mörður Árnason hefur boðað og hef sagt honum það áður á fundum nefndarinnar.

Þá vil ég koma stuttlega inn á nokkur atriði sem hafa kannski ekki verið nefnd. Til að mynda er hert á þeirri skyldu aðalmanna í sveitarstjórnum að þeir sjái um að boða fyrir sig varamenn og geri það á þann veg að þegar þeir eru forfallaðir óski þeir eftir því að varamenn verði boðaðir en leggi það ekki á þá sem stýra sveitarfélaginu að vera að því á síðustu stundu. Ákvæði er komið inn í frumvarpið, sem er breyting á lögum, um að boða beri fundi með þriggja sólarhringa fyrirvara — breytingartillaga er um að færa það aftur til tveggja sólarhringa eins og það er í núgildandi lögum — og því er mikilvægt að leggja þessa skyldu á aðalmennina þannig að varamenn þeirra geti kynnt sér þau mál sem eiga að vera á dagskrá, annars hefur þetta ekki mikinn tilgang að mínu viti.

Mig langar aðeins að fjalla um það sem töluvert var rætt um í sambandi við 50. gr. frumvarpsins þar sem talað er um byggðar- eða bæjarráðin. Gert er ráð fyrir að þeir aðilar sem ekki eiga rétt á kosningu í byggðar- eða bæjarráð megi tilnefna áheyrnarfulltrúa. Nefndin leggur fram breytingartillögu um að það eigi líka við um þær nefndir þar sem fullnaðarákvarðanir eru teknar, þ.e. ákvarðanir nefnda sem stýra ákveðnum málefnum, málefnum sem eru endanlega afgreidd í viðkomandi nefndum — lagt er til í breytingartillögum hv. samgöngunefndar að það gildi líka um þær nefndir sem fá þetta umboð.

Við þekkjum dæmi um það í sumum sveitarfélögum — eitt sveitarfélag kemur upp í huga mér þar sem er hreinn meiri hluti með 6 bæjarfulltrúum og síðan eru aðrir 5 listar með 1 fulltrúa — að byggðarráð er skipað 5 aðalfulltrúum sem þýðir að það eru þá 3 frá meiri hlutanum, 2 frá minni hlutanum og síðan fá þeir minnihlutahópar sem ekki eiga sæti í byggðarráðunum, og hafa ekki styrk til þess samkvæmt kosningaúrslitunum, áheyrnarfulltrúa. En við megum þá ekki gleyma því að þeir aðilar sem eiga sæti í bæjarstjórninni sem tilheyra meiri hlutanum hafa ekki sama aðgang að byggðarráðinu í sveitarfélaginu, en geta að sjálfsögðu verið í öðrum sveitarfélögum. Við þurfum að vera meðvituð um að þá er staðan orðin þannig að allur minni hlutinn á sæti í byggðarráðinu en einungis lítill hluti eða helmingurinn af meiri hlutanum. Þetta eru hlutir sem menn verða að gera sér grein fyrir, og það má líka halda því fram að hugsanlega sé þar hallað á þá fulltrúa sem tilheyra meiri hlutanum.

Ég vil örstutt koma inn á það sem fjallað er um í 65. gr. sem er um örugga meðferð fjármuna. Þetta var rætt og hv. samgöngunefnd leggur til að frekar sé talað um ábyrga meðferð. Við ættum að hafa lært það af því sem gerðist 2008 að erfitt er að fullyrða hvað er örugg meðferð fjármuna. Þegar búið er að setja hugsanleg refsiákvæði inn er ekki hægt að hafa þennan lagatexta með þessum hætti og þess vegna er þetta gert.

Þá komum við að 64. gr. sem mikil nýbreytni er í, þ.e. um fjármálareglur sveitarfélaganna, þau viðmið sem eru sett um afkomu og fjárhagsstöðu sveitarfélaganna og þær kröfur sem eru gerðar um að skuldaþakið megi ekki vera nema um 150% af reglulegum tekjum — þetta eru hlutir sem búið er að ræða töluvert í nefndinni og margir hafa rætt. Það hefur komið skýrt fram á undanförnum dögum að um einn þriðji sveitarfélaganna í landinu er yfir þessu marki og það er sett inn í lögin að ráðuneytinu er falið að útfæra reglugerð með nánari útfærslum á þessum hlutum, bæði hvað hægt er að hafa þar inni, tekjulega séð og skuldalega séð, og eins með þann aðlögunartíma sem er. Það var ákveðin umræða um það að þetta væri hugsanlega of mikið framsal valds frá löggjafarvaldinu til framkvæmdarvaldsins en eins og kemur fram í nefndarálitinu, og hv. þm. Björn Valur Gíslason fór yfir áðan, um að nefndin hafi ekki áhyggjur af því, enda sett endurskoðunarákvæði inn í lögin þar sem þetta verður tekið upp innan þriggja ára og farið yfir hvernig þetta hefur reynst — og eins er líka vísað til 98. gr. þar sem kemur fram að ráðuneytið gerir þetta í sem mestri sátt og samstarfi við sveitarfélögin í landinu til að þetta markmið nái fram að ganga.

Ég vil líka taka undir með hv. þm. Lúðvík Geirssyni, sem hann benti réttilega á áðan, að við setjum inn í breytingartillöguna 6 ár, sem gætu þá hugsanlega orðið 10 ár, því að skynsamlegra er að gera það á þann veg að menn nái þeim markmiðum sem sett eru fram í frumvarpinu sem slíku.

Það hefur líka verið nefnt, og hefur verið rætt um það innan sveitarfélaganna, hvað beri að hafa fyrir utan, þ.e. það sem taka eigi tillit til. Þar hafa orkufyrirtækin verið nefnd. Velta má því fyrir sér hvort það ættu líka að vera veitustofnanir, hugsanlega mætti taka tillit til hjúkrunarheimila sem verið er að byggja með svokallaðri leiguleið vegna þess að þar er gert ráð fyrir að sveitarfélögin yfirtaki og taki lán hjá Íbúðalánasjóði, byggi hjúkrunarheimilin en eins og allir vita standa sveitarfélögin straum af 15% en ríkið 8–5% þannig að það er mjög mikilvægt að skuldbinding sveitarfélaganna komi skýrt fram og líka þær leigutekjur og þeir samningar við ríkið sem koma á móti, ekki bara einhver eins árs leiga heldur það sem kemur þar á móti.

Mig langar líka að tala aðeins um 85. gr. Þar er talað um að ráðherra geti sett skilyrði um stjórn fjármála sveitarfélaganna. Talin eru upp ákveðin atriði sem þarf að skoða sérstaklega og ég vil nefna eitt þeirra. Í d-lið er talað um takmarkanir á lántökum og öðrum skuldbindingum, þar á meðal um gjaldmiðil sem heimilt er að taka lán í, um endurfjármögnun og önnur lánskjör. Ég tel mjög mikilvægt að þetta verði rætt við sveitarfélögin og útfært í reglugerðinni að sjálfsögðu í samráði og samstarfi við þau. Eins og við þekkjum og hv. þm. Lúðvík Geirsson benti réttilega á áðan féll gjaldmiðillinn okkar eftir efnahagshrunið og það á eftir að leiðrétta sveitarfélögin út úr því. Eins og hv. þingmaður bendir réttilega á er búið að fara í gegnum það og hvort heldur sem það er bankakerfi, sparisjóðskerfi eða ríkissjóður þá sitja sveitarfélögin í súpunni vegna þess að þau voru mörg hver með allt of há lán í erlendum gjaldmiðli þar sem þau hafa að sjálfsögðu tekjur í innlendum krónum. Það er því mjög skynsamlegt að menn skoði þetta mjög vandlega og ræði þetta.

Ég þekki þetta aðeins úr mínu sveitarfélagi þar sem ég sat í sveitarstjórn. Þar vorum við með um 2,7% í erlendum skuldum þegar hrunið varð. Við bjuggum í sjávarplássi sem byggði alla afkomu sína á gengi sjávarútvegsins og það þýddi að ef gengið félli mjög skarpt mundu tekjur sveitarfélagsins aukast. Við vorum alltaf sannfærð um að gengið væri allt of sterkt og höfðum af því miklar áhyggjur og töldum mjög varasamt að vera að taka erlent lán. Við fórum alltaf að ráði bæjarstjórans okkar sem er mjög varfærinn og vandaður maður sem barðist alltaf fyrir því að það yrði ekki gert, enda þurfti hann svo sem ekki að beita mikilli hörku, það var að sjálfsögðu skoðun okkar allra.

Ég vil líka benda á annað atriði sem ég tel mjög mikilvægt. Nú er sett inn breytingartillaga um að endurskoðandi ársreikninga sveitarfélaganna þurfi að skila skriflegri skýrslu til bæjarstjórnanna. Þegar hann er búinn að fara yfir ársreikninginn skrifar hann skýrslu sem hann kynnir fyrir bæjarstjórn á fundi, fer yfir helstu atriði sem snúa að fjármálum sveitarfélaganna og rekstri og kynnir það. Þetta hefur verið gert í því sveitarfélagi sem ég hef starfað í alla tíð frá því að ég kom þangað í sveitarstjórnarstörfin og þetta er gríðarlega mikilvægt fyrir bæjarfulltrúana. Eins og ég sagði áðan þá eiga ekki allir sæti í bæjar- eða byggðarráðunum og það er gríðarlega mikilvægt að endurskoðandi sveitarfélagsins skýri þetta með þessum hætti.

Einmitt þegar menn fóru að fara yfir rekstur sveitarfélaganna fór ráðuneytið að kalla eftir skýrslum endurskoðenda um rekstur sveitarfélaganna, þ.e. ársreikningum. Þá kom í ljós að ekki voru um það skilyrði í gömlu lögunum, sum sveitarfélög gerðu þetta en önnur ekki. Þetta er eitt atriði sem ég vil benda á.

Ég vil í lok máls míns koma að breytingartillögu frá hv. þm. Lilju Mósesdóttur og Sigurði Inga Jóhannssyni um breytingar á 64. gr. sem mér er algerlega óskiljanleg. Ég mundi segja að það væri svipað því að einhver hv. þingmaður flytti tillögu um að við settum engin fjárlög fyrir ríkissjóð heldur væri framkvæmdarvaldinu falið að fara bara varlega með fjármuni ríkisins og hafa það í skikkanlegu lagi. Ég mun að sjálfsögðu greiða atkvæði með þeirri tillögu.

Að lokum, virðulegi forseti, vil ég þakka meðnefndarmönnum mínum í hv. samgöngunefnd fyrir þá vinnu sem unnin var þar og sérstaklega hv. þm. Birni Val Gíslasyni sem stýrði þessu af mikilli röggsemi. Lokaorð mín eru þessi: Við værum ekki að fjalla um og samþykkja ný sveitarstjórnarlög á morgun ef vinnubrögðin í nefndinni hefðu ekki verið eins og þau voru við afgreiðslu þessa máls.