139. löggjafarþing — 165. fundur,  17. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[00:06]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil að það komi mjög skýrt fram að ég er ekki að vefengja rétt þingsins eða samgöngunefndar til að gera breytingar á þessu frumvarpi og samþykkja síðan það sem meiri hluti er fyrir á Alþingi. Ég er alls ekki að vefengja þann rétt. Það sem ég er hins vegar að segja er að mikilvægt er, eins og fram hefur komið í máli þingmanna í umræðu um þetta mál, að það séu opin og heiðarleg samskipti og skoðanaskipti á milli og það hefur einkennt vinnslu þessa máls. Það er einvörðungu það sem ég á við. Ég hef margoft lýst því yfir að ég tel þetta atriði vera einn af grundvallarþáttum þessa frumvarps og ef til stendur að gera breytingar á því þá hefði ég fyrir mitt leyti, sem aðstandandi þessa frumvarps, viljað vita það og getað tekið þátt í umræðu um málið. Ég er ekki að vefengja rétt þingsins eða nefndarinnar, það er ég ekki að gera.