139. löggjafarþing — 165. fundur,  17. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[00:10]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég horfi þannig á þetta mál að mikill munur sé á því hvort við erum að tala um fjármál sem tekjur eða útgjöld og það sé lykilatriði í sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga að þau geti markað sér þær tekjur sem þarf til að reka sveitarfélagið. Ég horfi til þess að í þeim almennu kosningum sem fara skipulega fram á fjögurra ára fresti samkvæmt lögum og reglum til sveitarstjórnar sé í raun og veru verið að kjósa um þá þjónustu, skattstefnu og fjármálastefnu sem sveitarfélagið og þeir fulltrúar sem bjóða sig fram leggja upp með fyrir nýtt kjörtímabil. Það séu þær íbúakosningar sem eiga að ráða um það eftir hvaða tekjuramma menn ætla að vinna.

Hins vegar getur komið upp á kjörtímabilinu, eins og við þekkjum dæmi um í mörgum tilfellum, deilur um hvort eigi að fara nákvæmlega í ákveðnar framkvæmdir við byggingu á tilteknum mannvirkjum hvort sem það eru skólar, íþróttahús eða hvað annað. Það lýtur að fjárhagslegum þáttum, það getur lotið að skipulagsþáttum, umhverfisþáttum og þá er eðlilegt að íbúarnir hafi allan rétt til að segja sínar skoðanir í þeim efnum og kjósa um það í sérstökum íbúakosningum.