139. löggjafarþing — 165. fundur,  17. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[00:19]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var prýðisgóð ræða, málefnaleg og innihaldsrík en þar var einn grundvallarmisskilningur, að ég væri sérstakur áhugamaður um að efna til kosninga í sveitarfélögum um tekjustofna sveitarfélaganna, þ.e. útsvarið. Ég er ekki að leggja neitt slíkt til. Ég andmæli því hins vegar að það verði sett í landslög að fólki verði bannað að óska eftir kosningu um slík málefni. Um það snýst þetta. Staðreyndin er sú að ég hygg að íbúalýðræði eða krafa um kosningu verði miklu frekar í þá veru sem hv. þingmaður nefnir um tilteknar framkvæmdir eða tiltekin deilumál sem eru uppi, hvort eigi að stækka álver eða annað af því tagi. Það eru málin sem kallað verður eftir, held ég.

Það eina sem ég segi er að það á ekki að setja takmarkanir á fólk með þessum hætti. Mér finnst það bera vott um forræðishyggju sem á ekki heima í lögum af þessu tagi. Ég tel að þetta eigi að vera alveg opið og ég held að það sé ekki nokkur réttur fyrir því, og þar að auki óþarfi út frá reynslu manna, að vantreysta fólki með þessum hætti.

Þegar skoðanakannanir hafa til dæmis verið gerðar um hvort fólk vilji greiða skatta og jafnvel hærri skatta til að fjármagna heilbrigðisþjónustu hefur svarið alltaf verið á einn veg. Ég hef margar kannanir Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um það, alltaf á einn veg. Yfirgnæfandi meiri hluti, hlutfallið hefur verið 70–80%, segir: Já, við erum tilbúin að gera það. Ég held að það sé bara gott að virkja fólk í ábyrgri ákvarðanatöku af þessu tagi eins og hv. þingmaður (Forseti hringir.) reyndar vísaði til í sínu sveitarfélagi.