139. löggjafarþing — 165. fundur,  17. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[00:24]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hæstv. innanríkisráðherra erum algjörlega sammála um að við eigum ekki að vera skömmtunarstjórar á frelsið. En menn verða að hugsa þetta lengra og nú er ég að hugsa upphátt út af þeirri umræðu sem á sér stað akkúrat þessa stundina. Segjum sem svo að í fámennu sveitarfélagi þar sem búa bara 100–200 manns, jafnvel 50 manns eða guð má vita hvað, væri einhver stemning fyrir því hjá ákveðnum hluta íbúanna að láta kjósa um útsvarsprósentuna, láta lækka hana vegna þess að það fólk ætti ekki krakka í skóla eða leikskóla. Það gæti alveg gerst. Sveitarfélögin búa við það að vera með lögbundna þjónustu og þá liggur fyrir að sveitarfélagið yrði að skerða þá þjónustu sem er ekki lögbundin. Við vitum hver hún er. Hver er sú þjónusta sem er ekki lögbundin hjá sveitarfélögunum? Til dæmis leikskólarnir og tónlistarnámið. Þá gæti komið upp sú staða að það yrði kosið um að lækka útsvarið, fara með það niður þó að geta sveitarfélagsins væri ekki fyrir hendi til að sinna þeirri þjónustu sem í boði væri. Þetta gæti gerst í fámennu sveitarfélagi þar sem ákveðinn hluti íbúanna á ekki börn í skólum og væri jafnvel með búsetu annars staðar. Það er hægt að taka marga vinkla í þessu máli. Það er ekki allt klippt og skorið eins og ég er að reyna að koma að í þessu svari við hæstv. ráðherra. Þetta er nokkuð sem við þurfum að þróa áfram. Það eru miklar lýðræðisumbætur í frumvarpinu sem ég fagna sérstaklega og tel að við ættum að þróa frekar, eins og ég sagði áðan, að þegar sveitarfélögin færu í mjög dýrar framkvæmdir væri íbúunum leyft að koma að þeim en ekki beint að ákvarðanatöku um tekjustofna sveitarfélagsins, hvort sem það er útsvar eða annað. Þetta er nokkuð sem við verðum að þróa áfram (Forseti hringir.) eftir að lögin hafa verið samþykkt.