139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

dagskrá fundarins.

[09:34]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir að vekja athygli á því að hér vantar mál á dagskrána án þess að nokkur skýring hafi verið sett fram um það. Þar á meðal er þingmál um umhverfisábyrgð, stjórnarfrumvarp frá umhverfisráðherra, mikilvægt mál sem mundi lögfesta mengunarbótaregluna eða greiðslureglu umhverfisréttarins í íslenskri löggjöf og var kominn tími til fyrir löngu eins og við sjáum á ýmsum mengunarslysum undanfarin missiri. Ég óska eftir því að fá að vita af hverju þetta er og hvort það sé rétt að tiltekinn stjórnmálaflokkur hér á þinginu hafi sérstaklega óskað eftir því að þetta mál yrði tekið út af dagskrá og þá af hvaða völdum.