139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

dagskrá fundarins.

[09:37]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég var á fundi annars staðar í húsinu en mér skilst að hér hafi komið nokkuð til umræðu dagskrá fundarins og að einhver mál sem sett hefðu verið á dagskrá í gær væru ekki á dagskrá í dag. Ég þekki ekki söguna á bak við það allt saman. Hins vegar var vikið að frumvarpi um umhverfisábyrgð sem vissulega hefur verið afgreitt úr umhverfisnefnd en ljóst var að ágreiningur var um. Ég hygg að það megi rekja hann til mín og fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í nefndinni a.m.k. Við höfðum komið ábendingum á framfæri um að þarna væri um að ræða mál sem mundi krefjast töluverðrar umræðu áður en það yrði afgreitt á þingi, og af þeim sökum hafi forseti hugsanlega tekið það út.